Ríkissaksóknari gerir alvarlegar athugasemdir við rannsókn lögreglu á andláti Perlu Dísar Bachmann Guðmundsdóttur sem lést í september 2019. Þetta kom fram í kvöldfréttum RUV en fjallað var um málið í Kveik í lok janúar. Tuttugufaldur dauðaskammtur af MDMA fannst í blóði hennar.
Aðstandendur Perlu voru afar ósáttir við málsmeðferð lögreglu sem þeim fannst einkennast af takmörkuðum áhuga og fordómum vegna þess að hún hefði verið í neyslu. Kærasti Perlu Dísar var kærður fyrir að hafa látið farast fyrir að koma manneskju í neyð til aðstoðar og talið að hann hafi gefið henni efnið.
Í frétt RUV segir að ekki megi annað sjá en ríkissaksóknari taki undir flest það sem aðstandendur höfðu við rannsóknina að athuga, og vísað í bréf ríkissaksóknara til lögreglu sem fréttastofan hefur undir höndum.
Þá segir í frétt RUV: „Bréfið er í raun áfellisdómur yfir vinnubrögðum lögreglu. Þar er að finna ábendingar um 6-7 atriði sem ríkissaksóknari telur rétt að huga að framvegis við rannsóknir í svipuðum málum. Talan er á reiki því hluti bréfsins er svertur og því ekki ljóst hversu margar þær eru.“
Bréf ríkissaksóknara til lögreglu er dagsett 15. janúar 2021, fyrir rúmum þremur vikum. Aðstandendur Perlu hafa þó ekkert heyrt frá lögreglu vegna þessa áfellisdóms ríkissaksóknara yfir vinnubrögðunum.