Þýskur karlmaður var í dag sýknaður af ákæru um alvarlega líkamsárás. Ákærði viðurkenndi að hafa stungið mann í handlegg með hníf, en hélt því fram að það hefði verið gert í sjálfsvörn.
DV fjallaði um málið þegar maðurinn var ákærður í október.
Málið teygir sig aftur til febrúar í fyrra. Höfðu þá ákærði, sem fæddur er árið 1994, og kærasta hans verið á ferðalagi um Ísland í húsbíl, en þau eru bæði þýskir ríkisborgarar. Aðfaranótt 24. febrúar í fyrra höfðu þau lagt bíl sínum við Grindavíkurveg áður en þau bjuggu sig undir nætursvefn í húsbílnum.
Þegar eina mínútu vantaði í þrjú að nóttu til barst lögreglu tilkynning frá manninum um að vopnaður maður eða menn hefðu ráðist á sig og reynt að brjótast inn í Volkswagen Caddy bifreið sem þau höfðu á leigu. Bíllinn var þá við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Sagði maðurinn við lögreglu að hann hefði vaknað við það að brotin væri rúða í bílnum og að hann hefði náð að skera manninn með hníf áður en innbrotsþjófurinn ók á brott á hvítri bifreið áleiðis til Keflavíkur. Lögreglan handtók innbrotsþjófinn hálftíma síðar í bænum og fór með hann til aðhlynningar á heilsugæsluna í Grindavík og þaðan á bráðamóttöku Landsspítalans í Fossvogi vegna skurðar á hendi. Tekið var blóðsýni úr innbrotsþjófnum og reyndist hann undir miklum áhrifum amfetamíns og kvíðastillandi lyfja, að því er segir í dómnum. Var hann af þeim sökum óhæfur til að stjórna bifreið.
Á vettvangi innbrotsins ræddi lögregla við Þjóðverjana sem sögðu lögreglu sögu sína. Framvísaði maðurinn hnífnum sem hann notaði til þess að stinga innbrotsþjófinn í hendina og reyndist þar um að ræða vasahníf af gerðinni Smith & Wesson. Öðrum húsbíl var lagt við þetta sama hringtorg með fjórum innanborðs og voru þau öll boðuð til skýrslugjafar hjá lögreglu. Staðfestu þau öll að mestu leyti sögu Þjóðverjanna.
Maðurinn var svo yfirheyrður af lögreglu rétt fyrir hádegi þennan sama dag, þá grunaður um að hafa framið stórfellda líkamsárás með því að stinga innbrotsþjófinn í handlegginn.
Maðurinn bar því við að hann og kona sín hefðu hitt mann um ellefu leytið kvöldið áður sem virtist í annarlegu ástandi. Eftir stutt samtal þeirra ók maðurinn á brott. Fjórum klukkutímum síðar, rétt fyrir þrjú um nótt hafi þau svo vaknað við það að þungur málmhlutur hafi skollið í rúðunni á bílnum og hún svo splundrast skömmu síðar. Ákærði hafi „fengið adrenalín sjokk,“ rokið upp úr svefni og er hann sá handlegg teygja sig inn um brotna rúðu gripið til vasahnífsins.
Þegar innbrotsþjófurinn sinnti ekki skipunum hans um að hörfa á brott hafi hann stungið hann einu sinni í handlegginn. Þjófurinn rauk þá á brott, stökk í bíl sinn og ók á brott, sem áður var lýst.
Innbrotsþjófurinn ætlaði gaf þá skýringu að hann hefði verið á svæðinu þarna um ellefu leytið, eins og þýska parið hafði lýst, til þess að kanna orsök tjóns sem orðið hafði á bíl sínum. Sagðist hann telja að snjóruðningstæki hefði valdið skemmdunum. Um klukkan þrjú sagðist maðurinn aftur hafa verið á ferðinni á þessu svæði og þá séð snjóruðningstæki á þessum sama stað. Hann hafi þá ákveðið að banka á glugga húsbílsins til þess að spyrja fólkið, um miðja nótt, hvort þau hefðu séð fleiri snjóruðningstæki á ferðinni og notað vasaljós í bankið. „Vildi þá ekki betur til en svo að hann hrasaði við húsbílinn og braut óvart hliðarrúðu með vasaljósinu,“ segir í skýrslu mannsins sem vísað er til í dómnum.
Þegar maðurinn hafi svo fundið nístandi sársauka í handleggnum hafi hann hrokkið frá húsbílnum og ekið á brott.
Um þrem vikum síðar gaf maðurinn aðra skýrslu hjá lögreglunni og sagði þá að báðir handleggir hans hafi farið inn um glugga bílsins þegar rúðan brotnaði. Vasaljós mannsins fannst hvergi, þrátt fyrir leit lögreglu í báðum bílum og á svæðinu.
Fyrir dómi lýsti ferðamaðurinn þýski því hvernig atburðirnir hefðu gerst á aðeins örfáum sekúndum. Sagði maðurinn sig hafa orðið skelfingu lostinn við árás mannsins og óttast um líf sitt og konunnar og að hann hafi ekki vitað hvort einn eða fleiri árásarmenn leyndust í vetrarmyrkrinu fyrir utan bílinn. „Hann hafi því gripið til þess fyrsta sem hann fann, þ.e. vasahnífsins sem hann og [konan] höfðu notað kvöldið áður og stungið þann sem kominn var með efri hluta líkama síns inn í húsbílinn,“ segir í dómnum.
Ákærði kvaðst ekki hafa ætlað að meiða árásarmanninn og lagði til hans í blindni um hvar lagið kæmi í líkama hans. Ákærði sagði að eina útgönguleið hans og [konunnar] úr húsbílnum hafi verið gegnum dyrnar að framanverðu og þau því verið „eins og fangar í búri“ þegar ráðist var til atlögu að bílnum. Ákærði kvað engin verðmæti hafa verið í framsætum húsbílsins og því talið að eina ástæðan fyrir innrásinni væri að meiða hann og [konuna].
Framburður parsins í húsbílnum samræmdist að öllu leyti því sem kom fram er þau gáfu skýrslu hjá lögreglu. Þá voru frásagnir þeirra að fullu leyti í samræmi við frásagnir annarra vitna og samræmdust öðrum göngum málsins. Innbrotsþjófurinn var hins vegar ekki samkvæmur sjálfum sér í skýrslugjöfum lögreglu og samræmdist framburður hans fyrir dómi ekki fyrri yfirlýsingum hans. Þá kom á daginn að beyglan á bíl hans sem hann sagði að hefði orðið þegar bílnum var lagt við vegkant á Reykjanesbraut hefði í raun komið til þegar ekið var á bifreið hans á Ísafirði mánuði fyrr. Reyndi maðurinn að leyna lögreglu þessu atriði.
Þá segir í dómnum að sú skýring mannsins að hann hafi verið að leita að sökudólgi ökutækjatjóns 2-3 dögum eftir tjónatburð væri afar hæpin. Útskýringar mannsins á ferðum sínum um svæðið þessa nótt voru einnig á reiki. Fyrir dómi talaði hann til dæmis ekkert um að snjóruðningstæki hefði fangað athygli hans og dregið hann inn á bílaplanið, þó að hann hefði gefið það sem aðalástæðu þess að hann hafi verið á ferli á bílastæðinu um miðja nótt í skýrslugjöf sinni hjá lögreglu.
Íslensk lög gera ráð fyrir því að til þess að ofbeldi verði refsilaust sökum sjálfsvarnar verði verknaðurinn sem unnin er í sjálfsvörn að vera nauðsynlegur til þess að afstýra árás sem byrjuð er eða vofir yfir, eins og það er orðað í lögunum. Þá segir að varnirnar mega ekki vera „augsýnilegri hættulegri“ en árásin og það tjón sem af henni mátti vænta.
Í málinu lá fyrir játning Þjóðverjans að hafa stungið manninn í hendina og var því tekist á um það hvort að um væri að ræða nauðvörn eða ekki.
Segir í niðurstöðu hluta dómsins:
Þau höfðu lagt húsbíl sínum til næturdvalar utan alfaraleiðar og vöknuðu um miðja nótt, í niðamyrkri, við það að einn eða fleiri einstaklingar börðu bílinn að utan. Þrátt fyrir hávær köll um að vera látin í friði var áfram lamið í bílinn með föstu áhaldi, sem þau töldu vera úr járni og óttuðust að væri vopn, sem beita ætti gegn þeim.
Þá er því lýst að parið hafi verið innikróað í afturhluta húsbílsins þegar árásin átti sér stað og ómögulegt hafi verið fyrir fólkið að vita hversu margir leyndust í myrkrinu.
Þegar síðan árás hófst og rúðan splundraðist í farþegahurðinni urðu þau skelfingu lostin og töldu lífi sínu ógnað. Undir þessum kringumstæðum greip ákærði í örvæntingu til umrædds vasahnífs, sem lá í vaski við hlið hans, og lagði í blindni til brotaþola, sem virtist vera að brjóta sér leið inn í húsbílinn, og kom hnífurinn í hægri upphandlegg hans. Við mat á því hvort þessi viðbrögð ákærða geti talist forsvaranleg ber að líta til þess að atburðarás var afar hröð og að ekki liðu margar sekúndur frá því að ákærði vaknaði og þar til hann greip til varna gegn ólögmætri árás brotaþola í húsbílinn.
Í niðurstöðunni segir að þó ákærði hafi vissulega farið út fyrir takmörk leyfilegrar nauðvarnar, verði að líta til þess að ákærði væri skelfingu lostinn og að hann gæti ekki vitað hvert umfang árásarinnar sem yfir stóð væri.
Maðurinn var því sýknaður af ákærunni og fellur allur málskostnaður á ríkið.
Dóminn má sjá í heild sinni hér.