Ekki verður farið fram á framlengingu gæsluvarðhalds yfir Halli Gunnari Erlingssyni sem grunaður er um að hafa skotið með riffli á fjölskyldubíl Dags B. Eggertssonar.
„Við förum ekki fram á framlengingu; það er ekki talinn grundvöllur til áframhaldandi gæsluvarðhalds,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, í samtali við RÚV. „Það rennur út klukkan fjögur í dag.“
Hallur Gunnar, sem er fyrrverandi lögreglumaður, var handtekinn þann 30. janúar en á sama tíma var annar karlmaður á sextugsaldri handtekinn í tengslum við málið. Honum var þó síðar sleppt.
Hallur hlaut dóm árið 2003 fyrir kynferðisbrot gegn ungum stúlkum. Hann lauk afplánun árið 2005 og hlaut uppreisn æru árið 2010.