Lögreglan kölluð til í gær vegna sprengju sem fannst í gámi á vinnusvæði í Garðabæ í gær. Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir þetta í samtali við DV og segir að um lítils háttar sprengju hafi verið að ræða. „Þetta var lítil pakkning, greinilega hafa þarna flugeldar verið teknir í sundur og settir aftur saman,“ segir Skúli.
Skúli segir að lögreglu hafi borist tilkynning um málið í hádeginu í gær og að lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem og fulltrúar sérsveitar ríkislögreglustjóra hafi brugðist við. Munu sérfræðingar hjá sérsveitinni hafa eytt sprengjunni á staðnum.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar var séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu vegna málsins í gær en var ekki kölluð út.
Ekki er vitað hverjir voru að verki.