fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Kona segir frá ofbeldi sem fimleikaþjálfari á Íslandi beitti hana – „Ef ég væri yngri myndi ég vilja setja í þig“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 3. febrúar 2021 12:30

Fimleikasalur á Íslandi, mynd tengist fréttinni ekki beint. Mynd/Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það eru til ofbeldissögur af öllu tagi í fimleikum. Ég hef heyrt um fleiri sögur en mína þar sem þjálfarar beita líkamlegu eða andlegu ofbeldi. Stundum eru þetta erlendir þjálfarar með öðruvísi bakgrunn eins og í mínu tilfelli.“

Svona hefst saga sem fimleikakona á Íslandi skrifar. Frásögn hennar birtist á nýjum vef sem kallast Síðasta Sagan en vefurinn er í umsjón Margrétar Bjargar Ástvaldsdóttur sem safnar frásögnunum. Margrét er félagsfræðingur, þjálfari körfuboltaliðsins Aþenu og leikmaður Fylkis í Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu.

Frásögn fimleikakonunnar er ansi óhugnanleg og sýnir um leið ofbeldið sem margar íþróttakonur verða fyrir hér á landi. „Ég lenti í erlendum þjálfara sem beitti mig andlegu kynferðislegu ofbeldi,“ segir konan en þjálfarinn byrjaði að þjálfa hana þegar hún var 14-15 ára gömul og var hann að þjálfa hana í sex ár.

„Þjálfararnir voru hjón sem höfðu strax mikinn áhuga á mér. Þau kunnu að meta hvað ég lagði mig mikið fram og sáu að ég gæti unnið fyrir því að ná árangri þó ég væri ekki best í fimleikum á þessum tíma. Minn fjölskyldubakrunnur er erlendur og voru þjálfararnir frá sama landi. Á þessum tíma lærði ég helling í tungumálinu frá þeim. Ég lærði mikið af ljótum orðum á þessum tíma. Ég skildi hvað þau sögðu en hinar stelpurnar ekki.“

„Mamma tók eftir að ég var aldrei glöð lengur“

Konan segir að fimleikahópurinn og hjónin hafi eytt miklum tíma saman á hverjum degi vegna æfinga. Hjónin áttu í erfiðleikum með að eignast börn og rifust mikið um það og aðra hluti. Í frásögn konunnar kemur fram að þessir erfiðleikar í hjónabandinu hafi skilað sér inn á æfingarnar og að það hafi bitnað á stelpunum. „Öll vandamál þeirra beindust að okkur. Hann lét okkur heyra það,“ segir hún.

„Þau voru góðir þjálfarar og eftir þrjú ár náðum við bætingum og árangri á stærstu mótum landsins. Ég var komin í landsliðið. Á sama tíma var verið að eyðileggja andlegu hliðina okkar. Eftir þrjú ár versnaði þetta rosalega. Hann talaði mjög niðrandi um okkur, mikið á okkar tungumáli.“

Konan segir síðan frá því sem þjálfarinn sagði á æfingum á sínu tungumáli en hún skildi hvað hann var að segja. „Þegar ég stóð við magnesíum dallinn, þá vissi hann að ég skildi og sagði „rosalega er þessi orðin feit… svo feit að enginn strákur vill hana“. Ég held andliti og faldi það sem hann raunverulega sagði,“ segir hún.

„Ef stelpurnar spurðu mig hvað hann hefði verið að segja. Þá sagði ég til dæmis „Hann var að segja að við ættum að gera fjórar umferðir af þessari æfingu“. Ég var alltaf að fela þetta, mér fannst það vera mín ábyrgð. Þegar hann sagði þessa óviðeigandi hluti sem þjálfari á aldrei að segja þá var hann alltaf með ákveðin tón í röddinni. Hann hefði alveg eins getað verið að segja „mikið var veðrið gott í dag“ í staðinn fyrir „rosalega er hún með flottan rass“, „hún er búin að fitna svakalega“ … en sagði þetta upphátt og vissi alltaf að ég skildi þetta.“

Konan segir að það sé eitt sem hún nær ekki í dag og það er hvernig hún náði að útiloka þetta. „Ég bara fór á tvíslánna og gerði mitt. Fór heim og grét og mætti daginn eftir og hélt áfram að æfa. Mamma tók eftir að ég var aldrei glöð lengur,“ segir hún.

„Ef ég væri yngri myndi ég vilja setja í þig“

Með tímanum fór andrúmsloftið hjá fimleikahópnum að breytast. Konan segir að ein stelpan hafi byrjað að mæta í fleiri flíkum á æfingu. „Eftir að þjálfarinn nefndi að hún væri búin bæta á sig og þyrfti að gera eitthvað í því til að líkaminn hennar myndi ekki meiðast. Hann meinti vel, en það er óþægilegt að heyra svona hluti um okkur á þessum aldri þegar líkaminn er að breytast og sjálfsmyndin ekki nógu sterk.,“ segir hún og bætir við að þetta hafi haft mikil áhrif á andlegu hliðina hjá þeim öllum.

„Við vorum alveg meðvitaðar um að við hefðum þyngst eða bætt á okkur þegar það gerðist. Það er aldrei gaman að heyra það, við skömmuðumst okkar. Á þessum tíma eru stelpurnar 15-20 ára og líkaminn er að breytast. Við vorum að raða upp fyrir framan þjálfarann og ég heyri hann segja að þessi stelpa væri orðin eins og svín (á okkar tungumáli). Ég man að fékk tár í augun en þurfti að halda í mér.. það var þriggja og hálfs tíma æfing fram undan.“

Líkamslag stelpnanna var ekki það eina sem þjálfarinn gerði athugasemdir um. Konan segir til að mynda frá einni virkilega ógeðfelldri setningu sem þjálfarinn sagði við hana. „Á morgunæfingu segir hann við mig „ef ég væri yngri myndi ég vilja setja í þig“. Hann nefndi þetta í samhenginu að ég væri svo sæt stelpa og ég stend mig svo vel og er að gera góða hluti í lífinu og að ef hann væri kærasti minn myndi hann gera það. Hann meinti þetta sem svona „pepp“ eða hvatningu við mig að hrósa mér að eg væri flott stelpa.“

„Ég hataði þetta“

Konan segir að hópurinn hafi bætt sig mikið, bæði persónulega og á meðal annarra á Íslandi. Markmiðin voru háttsett og þær vildu ekki taka neina áhættu með því að segja frá því sem þjálfarinn hafði gert. „Ég hataði þetta. Á æfingu gerði ég 9 rétta hluti af 10 en ég rakkaði mig niður fyrir þennan eina hlut sem ég gerði vitlaust,“ segir hún.

„Á hverri morgunæfingu var ég vigtuð, stundum gleymdi ég að pissa og vigtin sagði að ég væri búin að bæta á mig 200 grömmum. Þá var ég send inn í íþróttasal að hlaupa ferðir í þyngdarvesti fyrir framan handboltastrákana sem mér fannst mjög niðrandi. Svo fór ég heim og vildi ekki borða. Ég fékk leyfi til að taka námið mitt sem fjarnám á síðasta árinu mínu í menntaskóla til þess að æfa meira og mæta á morgunæfingar með þjálfaranum.“

„Hann býðst til að gista með mér í íbúðinni“

Árið 2013 fór konan ein í ferð á stórmót með þjálfaranum. „Við settumst upp í flugvél og hann byrjaði að lýsa ýtarlega hvernig kynlífi hann vildi stunda með konunni sinni. Kvöldið áður höfðu hjónin rifist og lét það ósætti í ljós en mér fannst það ekki koma mér neitt við. Og fannst óviðeigandi að hann væri að segja mér þetta,“ segir konan. „Tárin byrjuðu að leka á andliti mínu. Ég sneri andlitinu að glugganum svo hann sæji að ég væri ekki að gráta. Hann hélt áfram að tala. Ég hugsaði að þetta væri það sem koma skal næstu 10 daga í þessari ferð. Ég að fara að keppa á þessu stórmóti.“

Á mótinu meiddist konan illa og þurfti að fara á sjúkrahús. Þjálfarinn tók af henni símann og leyfði henni ekki að hringja í foreldra sína. „Hann vildi ekki að ég myndi skapa panikk heima. Ég var meira brotinn yfir því að ég fengi ekki að keppa, þetta átti að vera árið mitt. Ég var búin að leggja svo mikla vinnu í að komast á þennan stað,“ segir hún.

„Hann býðst til að gista með mér í íbúðinni sem ég gisti í, þessa nótt sem ég afþakka. Ég var búin að vera mjög leið yfir að hafa meiðst. Eftir að ég næ í símann sendi eg mömmu strax sms að ég hafi meiðst á æfingu og væri ekki að fara að keppa. Mamma hringir beint í hann og spyr af hverju við sögðum ekki strax frá og hvort ég sé í lagi. Hann horfði á mig og sagði „sko þú skapar bara panikk með þessu“.“

Um kvöldið þegar hún var komin heim af sjúkrahúsinu talaði hún fram eftir við móður sína í gegnum skilaboð í símanum sínum. „Ég var með endalaust af hugsunum í gangi yfir slysinu fyrr um daginn, svekkt yfir að geta ekki keppt, hrædd um áframhaldið ef meiðslin væru mjög alvarleg. Það var HM fram undan um haustið og ég var byrjuð að pæla hvort ég myndi ná að keppa þar. Áður en ég veit af er ég búin að skrifa til mömmu allt sem hafði gerst í flugvélinni og hvað hann hefði verið að segja við mig,“ segir hún en móðir hennar tók þá skjáskot af öllu samtalinu.

„Hinar stelpurnar sögðu líka frá“

Nokkrum vikum seinna talaði hún við konu í stjórn og sagði frá öllu sem hafði gerst þessi síðustu sex ár. „Þetta var fjögurra tíma fundur þar sem hún var hágrátandi. En ég var köld í framan allann fundinn og sagði meðal annars „honum langar að setja í mig, sofa hjá mér ef hann væri á sama aldri og ég“. Þetta var kynferðislegt andlegt ofbeldi og ég áttaði mig engan vegin á því á þessum tíma. Ég ætlaði aldrei að segja frá, hann var vinur foreldra minna.“

Daginn eftir að hún opnaði sig um ofbeldið var þjálfarinn rekinn. „Hinar stelpurnar sögðu líka frá. Við vorum allar kallaðar á fund af stjórn félagsins og spurðar hvort við vildum stíga fram. Þjálfarinn krafðist skýringa af hverju hann var rekinn. Vegna þess bökkuðum við allar út og vildum ekki segja frá,“ segir hún.

„Þetta var mjög skyndileg ákvörðun hjá fimleikafélagi að segja upp þjálfara rétt fyrir mót. Fólk í kringum okkur vissi að það var ekki allt í lagi. Fimleikasambandið hafði aldrei samband við mig eða stelpurnar til að athuga hvort allt væri með feldu. Af hverju tékkaði enginn á okkur?!“

Eftir fundinn fór hún heim hágrátandi því henni fannst allt vera sér að kenna. „Það er að koma stórt mót, við þjálfaralausar en vorum með besta þjálfarann nokkrum dögum áður. Mér fannst ég vera að eyðileggja allt. Eftir þetta var mikil óvissa. Margar hættu og ég kenndi mér um það. En fyrir mig þá eftir að ég hætti hjá þessum þjálfara og fór í annað félag urðu fimleikarnir mínir miklu betri.“

„Ég var brotin niður“

Að lokum segir konan að hún hafi talað um þennan tíma við hinar fimleikastelpurnar fyrir stuttu. „Þær voru með miklu fleiri sögur sem ég gerði mér ekki grein fyrir af þjálfaranum,“ segir hún. „Fólk sem beitir ofbeldi veit hvernig það nær fólki á sitt band. Hjá mér seldi hann mér hugmyndina að árangrinum sem ég ætlaði að ná. Ef ég færi eftir þessu æfingaplani og gerði þetta þá mun ég komast á þetta stórmót.“

Í dag sér konan hvað þetta gerði hana sterka en hún hefði samt ekki viljað ganga í gegnum þetta. „Sjálfstraustið mitt var ekki gott og hvernig ég leit á sjálfan mig á þessum tíma. Ég leit upp til þessara hjóna og er þeim þakklát. En ég hefði vilja sleppa þessum hluta þar sem ég var brotin niður í staðinn fyrir að byggja mig upp. Að þau hefðu sleppt að taka vandamálin með í vinnuna og láta það bitna á okkur til dæmis,“ segir hún.

„Samt sem áður kenndi þetta mér hvernig þjálfari ég vil vera, ég vil frekar byggja stelpurnar mínar upp sem ég er að þjálfa. Ég hefði viljað fá þau skilaboð að það væri í lagi að vera sterk og mössuð en ekki að ég væri of mössuð að strákar vildu mig ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sigga Dögg fagnar sigri eftir niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis – „Föstudagur til fjár, baby“

Sigga Dögg fagnar sigri eftir niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis – „Föstudagur til fjár, baby“
Fréttir
Í gær

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti
Fréttir
Í gær

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda
Fréttir
Í gær

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nágrannaerjur í stóru fjölbýlishúsi – Ásakanir um leyndarhyggju og sérmeðferð

Nágrannaerjur í stóru fjölbýlishúsi – Ásakanir um leyndarhyggju og sérmeðferð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjálfsvígstaktík norðurkóreskra hermanna í Úkraínu – Berjast fyrir Kim

Sjálfsvígstaktík norðurkóreskra hermanna í Úkraínu – Berjast fyrir Kim
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni