Einn Íslendingur er nú eftirlýstur af Interpol samkvæmt heimasíðu Alþjóðalögreglunnar. Sá heitir Robert Tomasson og er fæddur í Nablus í Jórdaníu árið 1966. Það voru yfirvöld í Bandaríkjunum sem óskuðu eftir því að Interpol lýsti eftir honum á meðal 194 aðildarríkja sinna.
Samkvæmt bandarískum yfirvöldum er Robert eftirlýstur vegna mannráns, alvarlegrar líkamsárásar og árásar á manneskju með skotvopni. Þá er Robert sagður hafa hótað vitni líkamsmeiðingum, lagt á ráðin um að fremja glæp, framið vopnað rán og hótað líkamsmeiðingum.
Robert gerðist íslenskur ríkisborgari á síðasta áratug 20. aldarinnar. Skömmu síðar flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann var árið 2010 handtekinn fyrir að ræna bílaumboð í Kaliforníu og hóta starfsmanni með skotvopni. Mun Robert hafa reitt fram tryggingargjald fyrir sig og sloppið þannig við varðhaldsvist. Hann gaf sig síðar ekki fram við lögreglu og hefur verið leitað síðan.
Robert er 167 sentimetrar á hæð og rétt rúm 70 kíló að þyngd. Hann er með svart hár og brún augu.
Robert er fjarri því fyrstur Íslendinga til þess að lenda á „Wanted“ vef Interpol. Árið 2015 var til dæmis lýst eftir Gunnari Þór Grétarssyni vegna smygls á fjórum kílóum af amfetamíni. Gunnar hafði áður verið dæmdur fyrir rán og fyrir að hafa ráðist á lögregluþjón.
Þá var árið 2018 lýst eftir Ara Rúnarssyni vegna rannsóknar á vopnuðu ráni og líkamsárás á Akureyri. Sagði Fréttablaðið frá því þá að Ari hefði farið úr landi áður en hægt var að birta honum ákæru vegna málsins. Var Ari í ákæru héraðssaksóknara sagður hafa hótað að drepa mann og grafa hann í holu úti
í sveit. Ari hlaut tvo dóma árið 2017 fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Áður hafði hann hlotið dóma fyrir sambærilegt athæfi hér á landi árið 2010 og í Belgíu þar áður.
Lengst allra sat líklega Ólafur Bragi Bragason á lista Interpol, en hann var eftirlýstur af Alþjóðalögreglunni í hartnær 20 ár. Voru það yfirvöld í Túnis sem kröfðust handtöku hans vegna gruns um smygl á tveimur tonnum af hassi. Ólafur á að baki býsna langan sakaferil. Hann var til dæmis dæmdur í fangelsi árið 1994 í Danmörku vegna smygls á 100 kílóum af hassi. Þá var hann handtekinn á Keflavíkurflugvelli með nokkur grömm af hassolíu í endaþarmi árið 1985. Ólafur var handtekinn í Þýskalandi vegna málsins en var sleppt þar sem skilyrði fyrir framsali til Túnis voru ekki fyrir hendi.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka, var einnig eftirlýstur um tíma á vef
Interpol. Var raunar tekist á um þá handtökuskipun í Hæstarétti. Lögmenn Sigurðar sögðu að saksóknarar hefðu farið fram úr sér í málinu og „blekkt“ Interpol til þess að auglýsa eftir honum. Sagði lögmaður Sigurðar saksóknara vita það full vel að Sigurður væri á heimili sínu í London.
Enginn er eftirlýstur fyrir hönd Íslands á heimasíðu Interpol.
Í svari við fyrirspurn DV um málið segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá embætti Ríkislögreglustjóra, að sú almenna vinnuregla gildi að það land/lögreglulið sem lýsir eftir einstaklingi svari fyrir það mál.
Aðspurður hvaða vinna fer fram hér á landi þegar Íslendingar eru eftirlýstir af erlendum lögregluliðum segir Jóhann að samvinna eigi sér stað milli innlendra og erlendra lögregluyfirvalda. „Það samstarf markast af eðli þess máls sem að baki stendur. Það kann að vera stutt samtal um málið eða þróast í að einstaklingur sé handtekinn sem þá byggir á formlegu ferli sem gildir milli viðkomandi landa. Algengt er að samskiptin lúti að því hvort hægt sé að staðfesta dvalarstað viðkomandi.“