Samiðn, samtök iðnfélaga, sendu frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem þau segja frá framlengingu á átakinu Allir vinna. Í átakinu var endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna endurbóta og viðhalds hækkuð úr 60% í 100% til að bregðast við niðursveiflu í efnahagslífinu af völdum COVID-19.
„Átakinu Allir vinna ber að fagna og einnig því ákveðið var að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna vinnu við íbúðarhúsnæði fram til ársloka 2021, og víkka út þá heimild þannig að hún taki m.a. einnig til húsnæðis í eigu sveitarfélaga og bílaviðgerða. Átakið Allir vinna hefur skilað okkar félagsmönnum aukinni vinnu og verkefnum á þessum erfiðu tímum. Á sama tíma lækkar átakið kostnað almennings en það er mikilvægt að hann geti leitað til fagmanna varðandi byggingarframkvæmdir og bílaviðgerðir og hins vegar verndar það mikilvæg störf í iðngreinum,“ segir Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar.
Hilmar segir að það sé þó ljóst að fjárfestingarátak sem ríkisstjórnin boðaði hefur ekki komið að fullu fram og er mikilvægt að meiri slagkraftur verði settur í þær framkvæmdir á komandi ári.
„Ríki og sveitarfélög þurfa að spýta verulega í lófana eins og þau lofuðu. Það hefur í raun aldrei verið mikilvægara en nú á samdráttartímum að stjórnvöld horfi til verkefna sem stuðla að atvinnusköpun. Brýnt er að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að greiðslur úr ríkissjóði skili mikilvægum, virðisaukandi verkefnum til samfélagsins,“
Hilmar segir það vera til hagsbóta fyrir okkur öll að fá aukna innspýtingu í íslenskt atvinnulíf sem fyrst á nýju ári.
„Þá er augljóslega tækifæri nú fyrir sveitarfélögin nú að nýta sér umrædda endurgreiðslu á virðisaukaskatti hefur í för með sér. Til lengri tíma litið felast tækifæri að horfa til nýsköpunar og hvernig nýta megi hana til frekari virðisauka fyrir íslenskt samfélag. Næstu misserin skiptir þó öllu máli að gefa í, hvað varðar framkvæmdir hjá hinu opinbera, hvort sem það er ríkissvaldið eða sveitarfélög.“