Enginn greindist með COVID-19 innanlands um helgina. Enginn utan sóttkvíar hefur greinst frá 20. janúar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi dagsins að hann myndi á næstunni kynna heilbrigðisráðherra tillögur að tilslökunum í sóttvarnaaðgerðum sem tækju gildi áður en núverandi tímabili er lokið, sem er 17. febrúar, en hann var ekki tilbúinn að tjá sig um innihald þeirra.
Þórólfur sagði að veiran væri ekki horfin úr samfélaginu en ánægjulegt væri hve vel hefði tekist til undanfarið. Um helgina greindust 11 smit á landamærunum. Flugferðum hefur fækkað en daglega koma 200-400 manns til landsins.
Undanfarið hafa sóttvarnayfirvöld brýnt fyrir atvinnurekendum að láta fólk sem er nýkomið til landsins ekki mæta til vinnu fyrr en niðurstaða liggur fyrir í seinni sýnatöku. Dæmi eru um að eftir þessu sé ekki farið. Þórólfur minnti á að þriðja bylja hófst á landamærasmiti hjá aðila sem ekki fór eftir reglum.
Ljóst er að ógn stafar af þessu. Breska afbrigðið svokallaða, sem er meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar, hefur greinst hjá 55 manns á landamærum og 13 innanlands sem höfðu náin tengsl við hina fyrrnefndu.