Bílasalan Höfðahöllin hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að fyrirtækið taki ekki við greiðslum með posa. Þeir sem kaupa bíla af fyrirtækinu verða hér eftir að greiða með millifærslu. Ástæðan er svimandi hækkun á þóknun til greiðslumiðlunarfyrirtækisins Borgunar sem raunar er að breytast í Salt eftir að alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay keypti upp fyrirtækið að mestu. Halda skal því til haga að hér er ekki um að ræða hækkun á þóknun heldur hefur fyrirtækið fellt niður þak á hámarksþóknun. Við það hækkar mjög þóknun í viðskiptum með dýra vöru því þóknunin er ákveðinn hundraðshluti af verðinu.
Þakið var 450 krónur á færslu, að minnsta kosti í samningi fyrirtækisins við Höfðahöllina. Þegar þóknunin er fastur hundraðshluti af verði vörunnar sem er seld þá er ólíku saman að jafna hvort verið er að selja til dæmis vörur fyrir fimm þúsund kall úr matvörluverslun eða dýra hluti eins og bíla.
Salt/Bókun gerði grein fyrir nýja fyrirkomulagi í tölvupósti í vor. Þar kemur fram að Salt/Borgun hefur þurft að bera hlutfallslegan kostnað af viðskiptum við kortafyrirtækin án hámarks og því hefur orðið misvægi á milli þess sem fyrirtækið ber úr býtum og kostnaðinn sem það verður fyrir í viðskiptum þar sem þak er á þóknun. Í bréfi fyrirtækisins til Höfðahallarinnar segir:
„Til þess að einfalda og bæta vöruframboð Borgunar hf. hefur sú ákvörðun verið tekin að afnema hámark á debetkortaþóknanir frá og með 2. febrúar 2021.
Ef miðað er við að umrætt hámark sé 450 kr. fyrir breytingar, þýðir það að ef tekin er færsla upp á til dæmis; 1.500.000 kr. eru einungis greiddar 450 kr. til Borgun hf. Hinsvegar er þessi færsla töluvert dýrari fyrir Borgun hf. þar sem greiða þarf millikortagjöld og kostnað til kortafélaga í samræmi við heildarupphæð færslu.
Þann 21. október 2020 stigum við okkar fyrstu skref í átt að einföldun og auknum fyrirsjáanleika vöruframboðs okkar með afnámi lágmarksþóknunar vegna debetkortafærslna. Í stað hámarks- eða lágmarksþóknunar debetkortafærslna verður eingöngu skuldfærð fastákveðin þóknun (í prósentum) samkvæmt seljandasamningi. Eftir gildistöku breytingarinnar mun því ríkja aukinn fyrirsjáanleiki um þóknanir vegna notkunar debetkorta.
Umrætt hámark er ekki að finna í verðskrá, samningum eða skilmálum af hálfu Borgunar hf. Hins vegar teljum við okkur hvoru tveggja rétt og skylt að tilkynna þér um fyrirhugaða breytingu með hæfilegum fyrirvara svo þú sjáir þér fært um að kynna þér hana, ef þess er þörf.
Okkar meginmarkmið er og verður ávallt að tryggja okkar viðskiptavinum bestu þjónustu sem möguleg er og teljum við framangreinda breytingu vera lið í því.“
Indriði Jónsson, eigandi Höfðahallarinnar, segist í samtali við DV vera mjög ósáttur við breytinguna. „Þeir sendu okkur tilkynningu í vorkunnartóni. Aumingja þeir, af því þeir voru að borga svo mikið með. Það voru nú fyrstu viðbrögðin eftir eigendaskiptin hvað þeir væru að tapa miklu á mér. Ég sagði að þeir myndu þá bara endanlega tapa öllum viðskiptum við okkur. Þeir eru búnir að skjóta sig í fótinn í mörg ár af því þeri eru með einhver prómill í þóknun hjá Mastercard og Visa International. Eru ekki með þak sjálfur á hinum endanum.“
Indriði skýrði í svari sínu til Salts/Borgunar að eftir að þakið er fellt burtu kosti 2.000.000 króna sala 7.600 krónur í færslugjald og 5.000.000 króna sala 19.000 krónur miðað við þá 0,38% þóknun sem hann búi við. Viðbrögð Salts/Borgunar voru þau að lækka þóknuna niður í 0,34%. Indriði segir í samtali við DV að hann væri alveg til í að greiða hærri þóknun hlutfallslega en brottfellingin á þakinu fari alveg með þetta.
Hann hefur nú tekið þá ákvörðun að hætta viðskiptum við Salt/Borgun og bjóða ekki lengur upp á að greitt sé í gegnum posa. Þá standa eftir þeir möguleikar að millifæra eða greiða með reiðufé.
Ljóst er að breytingin snertir helst þá sem selja eingöngu dýra hluti, til dæmis bílasölur. DV bar málið undir Salt/Borgun og í svari fyrirtækisins kemur fram að ekki sé hægt að búa við það til lengdar að borga með þjónustu. Svarið er eftirfarandi:
„Eins og fram kom í tilkynningu okkar til þeirra fáu söluaðila sem finna munu fyrir umræddri breytingu, þá er markmið Borgunar að gera verðskrá sína gegnsærri.
Borgun er skuldbundið til að greiða fasta hlutfallsprósentu af hverri færslu sem það tekur við, til kortafyrirtækjanna VISA og MasterCard. Að óbreyttu myndi Borgun því tapa á að meðhöndla hærri upphæðir fyrir hönd þeirra söluaðila sem voru með ákvæði um 450 kr. hámarksþóknun. Það getur enginn færsluhirðir búið við það til lengdar að borga með þjónustu sinni.
Þess má geta að í nóvember síðastliðnum hætti Borgun að innheimta sérstaka lágmarksþóknun vegna færslna á debetkort, gjald sem aðrir á markaðnum innheimta ennþá.“