Samkvæmt rannsókn Stundarinnar mælist enn blý í drykkjarvatni á Ásbrú og hefur mælst í tugi ára. Í úttekt blaðsins kemur fram að á tímabili var magn blýs í vatninu á Ásbrú allt að 2000 sinnum meira en leyfilegt er. Kemur þetta fram í óbirtum rannsóknargögnum.
Þegar Bandaríkjaher hafði aðsetur á Ásbrú lak eldsneyti sem innihélt blý í jarðveginn og í grunnvatn fyrir neðan svæðið. Einnig var notast við blý við gerð vatnslagna. Báðir þessir hlutir geta verið ástæða þess að blý finnist í vatninu þar.
Blý hefur mjög slæm og óafturkræf áhrif á fólk eins og í greininni segir:
„Sumir þungmálmar eru nauðsynlegir lífverum en geta haft eiturvirkni ef styrkur þeirra er of mikill, eins og kopar og sink. Aðrir þungamálmar, eins og blý, hafa engu þekktu hlutverki að gegna í lífríkinu og hafa eiturvirkni við lágan styrk. Þar sem blý flokkast sem þungamálmur, þá hefur hann mjög langan helmingunartíma, en það er sá tími sem það tekur málminn að brotna niður. Það tekur um 10 til 20 ár fyrir blý að brotna niður. Þegar blý fer inn í líkamann, geymir líkaminn stóran hluta af því, meðal annars í beinum. Ástæðan fyrir því að líkaminn tekur blýið og geymir það, er sú að blý líkist mikið kalki og því sest blýið á sömu staði í líkamanum og kalk, svo sem bein og heila. Áhrif blýs á börn eru mun meiri en fullorðna. Blý hefur gífurleg áhrif á heila barna.“