fbpx
Föstudagur 05.júlí 2024
Fréttir

Alræmdir bræður opnar pítsustað – Sakaðir um að svíkja sóknargjöld frá ríkinu í nafni Zúista

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 31. janúar 2021 13:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umfjöllun birtist fyrst í helgarblaði DV 22. janúar 2021

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson hafa ítrekað ratað á síður fjölmiðla undanfarin ár. Þeir eru athafnamenn sem sífellt leita nýrra sóknarfæra. Um þessar mundir söðla þeir um og eru komnir á veitingamarkaðinn en á dögunum opnuðu þeir pítsustaðinn Slæs. Viðskiptahættir þeirra hafa þó verið umdeildir í gegnum tíðina.

Kickstarter-bræður

Bræðurnir vöktu athygli árið 2015 þegar þeir söfnuðu metfé á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter þar sem þeir leituðu fjármagns fyrir þrjú verkefni, sólarrafhlöðu sem er fest á bakpoka, alhliða tengisnúru og vindmyllu til einkanota. Fengu bræðurnir í kjölfarið viðurnefnið Kickstarter-bræður. Kickstarter lokaði fyrir eina söfnunina eftir að um tuttugu milljónir höfðu safnast, en mikið þarf til svo að síðan loki fyrir slíka söfnun. Í kjölfarið var greint frá því að bræðurnir sættu rannsókn sérstaks saksóknara

Skömmu síðar vakti það mikla athygli þegar sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur Einari fyrir umfangsmikil fjársvik og gjaldeyrisbrot, en honum var gefið að sök að hafa svikið tugi milljóna út úr fjórum einstaklingum. Árið 2018 staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjaness í málinu þar sem Einar var fundinn sekur um að svíkja 74 milljónir króna út úr fjárfestum sem áttu að renna inn í fjárfestingarfélag í Bandaríkjunum, en Einar nýtti peningana í eigin þágu. Samkvæmt dóminum átti Einar sér engar málsbætur og brot hans voru metin skipulögð og úthugsuð og var hann dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi.

Zúista-bræður

Í árslok 2015 var upplýst að bræðurnir væru skráðir fyrir félagi Zúista, trúfélagi sem lofaði meðlimum að þeir fengju sóknargjöld sín endurgreidd og væri tilgangur félagsins að vekja upp umræðu um trúfrelsismál, en einnig var það sagt byggjast á trúarbrögðum fornrar þjóðar Súmera sem eru ein elstu trúarbrögð í heimi. Vegna loforðs um endurgreiðslu skráði mikill fjöldi landsmanna sig í félagið og fljótlega urðu Zúistar eitt stærsta trúfélag landsins. Bræðurnir voru þó ekki í forsvari fyirr félagið til að byrja með þótt Ágúst Arnar hafi tekið þátt í stofnun þess árið 2013.

Ljóst var því að tugir milljóna myndu berast félaginu í formi sóknargjalda. Áður höfðu bræðurnir ekki verið við stjórn félagsins en gerðu nú kröfu um yfirráð í krafti þess að þeir voru í forsvari rekstrarfélagsins á bak við það. Öldungaráð Zúista fór fram á að þeir fjármunir sem félagið átti rétt á yrðu frystir á meðan þeir reyndu að stofna nýtt rekstrarfélag, en þeir gátu ekki gert það. Einar og Ágúst Arnar fengu því full yfirráð yfir félaginu og sóknargjöldunum og fyrrverandi forráðamenn gáfu út yfirlýsingu um að þeir gætu ekki ábyrgst endurgreiðslu sóknargjalda og hvöttu meðlimi til að skrá sig úr félaginu.

Í desember síðastliðnum var svo greint frá því að ákæra hefði verið gefin út á hendur bræðrunum fyrir fjársvik í tengslum við rekstur Zúista. Eru þeir sagðir hafa styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags og á þeim grunni tekið við 85 milljónum frá íslenska ríkinu frá október 2017 til janúar 2019. Í ákæru er vikið að því að engin starfsemi fari fram innan félagsins og þar sé ekki lögð stund á átrúnað eða trú. Talið er að bræðurnir hafi flutt um 46 milljónir af sóknargjöldunum yfir á reikning félagsins EAF hf., en Einar er skráður eigandi þess og samkvæmt fyrirtækjaskrá er starfsemi félagsins blönduð heildverslun. Eins er þeim gert að sök að hafa lagt pening inn á persónulega reikninga sína og eytt þeim í veitingar, áfengi, matvörur og ferðalög.

Slæs-bræður

Greint var frá því í byrjun síðasta árs að bræðurnir hefðu stofnað félagið Megn ehf. Tilgangur félagsins var skráður veitingarekstur, lánastarfsemi, verslunarrekstur og kaup og sala eigna. Það var þó ekki fyrr enn nýlega sem fyrirtækið hóf eiginlega starfsemi þegar pítsustaðurinn Slæs var opnaður í Garðabæ. Líkt og bræðranna er háttur vakti Slæs fljótlega athygli fyrir annað en flatbökugerð en vörumerki staðarins þótti sláandi líkt vörumerki sams konar staðar í Bandaríkjunum. Ágúst Arnar hefur þó hafnað því að um hugverkastuld sé að ræða og segir merkið hafa verið keypt í stærsta myndabanka heims, Shutterstock. Áður hafði Ágúst þó sagt að merkið hefði fengist í gegnum vefsíðuna Fiverr þar sem hægt sé að kaupa þjónustu af einyrkjum.

Rétt er að afbrigði vörumerkisins má finna á Shutterstock, sem er sláandi líkt vörumerki bandaríska pítsustaðarins Firecraft Artisian Pizza. Vörumerki bandaríska pítsustaðarins er hannað af manni að nafni Allan Peters og er höfundarréttarvarið. Vörumerki Slæs er nákvæm eftirlíking skráða vörumerkisins, jafnvel með nákvæmlega sama rauða litnum. Það er þekkt vandamál að óprúttnir aðilar steli höfundarréttarvörðum myndum til að selja á Shutterstock, svo kaup á vörumerki frá Shutterstock tryggir ekki að ekki sé um stuld á höfundarréttarvörðu efni að ræða.

Bræðurnir hafa því nóg að gera um þessar mundir. Nýr rekstur, mögulega stolið vörumerki og ákæra fyrir stórfelld fjársvik sem hefur verið þingfest í héraðsdómi. Þeir verða því líklega seint kallaðir lognmollu-bræður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ef einhver hringir og segir að tölvan þín sé biluð skaltu vara þig

Ef einhver hringir og segir að tölvan þín sé biluð skaltu vara þig
Fréttir
Í gær

Alvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl

Alvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl
Fréttir
Í gær

Fasteignaeigandi á Sauðárkróki varð furðu lostinn þegar hann skoðaði lóðamat nágranna sinna – Lærði mikilvæga lexíu um forsendur útreikninganna

Fasteignaeigandi á Sauðárkróki varð furðu lostinn þegar hann skoðaði lóðamat nágranna sinna – Lærði mikilvæga lexíu um forsendur útreikninganna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján hjólar í uppgjafaprófessor út af „helför“ RÚV – „Eiríkur Rögnvaldsson ætlar að verja með kjafti og klóm þau hryðjuverk sem ég kalla hvorugkynssýki“

Kristján hjólar í uppgjafaprófessor út af „helför“ RÚV – „Eiríkur Rögnvaldsson ætlar að verja með kjafti og klóm þau hryðjuverk sem ég kalla hvorugkynssýki“