Þorgeir Páll Gíslason er 23 ára nemi í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og stefnir á að útskrifast þaðan í vor. Hann fór út til Frakklands í lok sumars 2020 í skiptinám við INSA-háskólann í Lyon. Hann átti bókað flug frá París í morgun til Amsterdam og ætlaði sér að fljúga þaðan heim til Íslands. Það tókst ekki og hófst þá martraðadagur Þorgeirs á Charles de Gaulle-flugvelli í París.
„Ég tók fyrstu lest frá Lyon í morgun til Parísar til að hafa sem lengstan tíma á flugvellinum ef eitthvað skildi koma upp á, sem það vissulega gerði. Þegar ég mæti er mér sagt að ég fái ekki að fara í flugvélina nema að ég fari í Rapid-test og að PCR-testið sem ég fór í myndi ekki duga. Sú skimun var í annari flugstöð flugvallarins og þurfti ég og meirihluti vélarinnar að reyna að komast þangað og til baka áður en flugvélin færi.“ sagði Þorgeir í samtali við blaðamann en það tókst ekki og hann missti af sínu fyrsta flugi þennan dag. En ævintýrið var rétt að byrja fyrir Þorgeir.
„Eftir langt rifrildi við starfsmenn flugfélagsins sem ég átti að fljúga með fékk ég loksins að breyta miðanum úr þessu flugi sem var farið yfir í flug til Kaupmannahafnar sem átti að fara stuttu seinna. Þá tók við sprettur að hliðinu en þangað mátti ég heldur ekki fara því ég var ekki kominn með flug frá Danmörku til Íslands og því enga ástæðu til að koma inn í landið.“ en landamæri Danmerkur eru ein þau lokuðustu í Evrópu þessa dagana.
„Þarna missi ég af flugi númer tvö en náði að koma mér að í öðru flugi til Amsterdam og þaðan mun ég að fljúga til Danmerkur og svo heim til Íslands og er kominn með miða í þessi flug. Núna er ég í röð til að fá annað PCR-test því það eru liðnir meira en 24 tímar síðan ég fékk út úr seinustu skimun í Lyon, annars er mér ekki hleypt til Amsterdam.“ segir Þorgeir vongóður.
Þessi sælutilfinning lifði ekki lengi því á meðan hann stóð í röð að tala í símann við blaðamann þá lokaði skimunarstöðin. „Nei, heyrðu þeir eru að loka, þeir eru að loka stöðinni meðan ég er í röð. Núna veit ég ekkert hvað er að fara að gerast“ en að lokum var honum hleypt í skimun sem hann fær niðurstöður úr eftir 24-48 tíma.
Covid gerir það líka að verkum að hann má ekki fara út af flugvellinum og inn í París. Því er hann fastur þar í nótt og þarf að reyna aftur á morgun. „Dagurinn minn er búinn að einkennast af því að hlaupa á milli flugstöðva með haug af Covid-testum í vasanum.
„Ég er búinn að missa af þremur flugum sem ég hafði bókað í dag og núna er ég ekki að fara að komast í hin þrjú sem ég á bókað í. Ætli ég endi bara ekki eins og Tom Hanks í The Terminal. Ég mun bara búa hérna.“ segir Þorgeir glaður í bragði, en myndin The Terminal fjallar um mann sem bjó á flugvelli í New York í 9 mánuði og mátti hvergi fara.
Þorgeir segist samt vongóður um að lenda á Íslandi á morgun, þó að hann sé ekki 100% með á nótunum hvernig það gerist.