Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Hafþóri Loga Hlynssyni, en hann var í nóvember árið 2018 fundinn sekur um fjárþvætti í héraðsdómi.
Hafþór Logi á sér nokkuð langan sakaferil. Fjárþvættisdómurinn yfir honum er sá tólfti sem hann hlýtur frá því honum var fyrst gerð refsing árið 2003. Hafþór er 34 ára gamall.
Forsaga málsins er sú að Hafþór var handtekinn árið 2017 og í framhaldi handtökunnar var húsleit framkvæmd á heimili hans. Reyndist Hafþór hafa falið tæplega tvær milljónir í rúmdýnu sinni, vera með um hálfa milljón í vasanum og um 700 þúsund í leynihólfi sem falið hafði verið á bakvið innréttingu í eldhúsi hússins. Í dómnum kemur fram að Hafþór er öryrki og þiggur öryrkjabætur, um 250 þúsund krónur á mánuði. Engu að síður ók hann um á Teslu og bjó í 320 fermetra einbýlishúsi. Hafþór gaf þá skýringu á vellystingum sínum að hann hafi búið í húsinu með einum til og þeir væru að leita sér að þriðja aðila til að „leigja með.“
Þá útskýrði Hafþór hið mikla magn seðla sem fundust heima hjá honum þannig að hann hefði fengið peninginn að láni hjá vini sínum. Tesluna sagðist Hafþór svo hafa keypt sér að hluta til með láni en hinn hluti kaupvirðisins hafi fengist frá tryggingafélaginu VÍS sem bætur vegna ökutækjatjóns.
Í ljósi afbrotasögu Hafþórs og annarra kringumstæðna þótti sannað að Hafþór hefði aflað sér talsverða tekna af „refsiverðum brotum,“ eða rúmlega átta milljóna. Var Hafþór því dæmdur í 12 mánaða fangelsi í héraðsdómi fyrir peningaþvætti og gert að sæta upptöku seðlanna sem fundust á honum og á heimili hans og bifreiðarinnar af gerðinni Tesla.
Landsréttur þyngdi svo þennan dóm í dag í 20 mánaða fangelsi en önnur ákvæði um upptöku peninga og bifreiðar standa óhreyfð.
Hafþór Logi varð þjóðþekktur í þegar hann birti mynd af sér og Sindra Þór Stefánssyni í Amsterdam. Sindri hafði þá skömmu áður klifrað út um glugga á fangelsinu að Sogni þar sem hann sat í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á innbroti í Bitcoin gagnaver í Borgarnesi. Flaug Sindri til Stokkhólms og tók lest þaðan til Amsterdam þar sem hann hitti Hafþór. Sindri var síðar handtekinn í Amsterdam og flogið með hann heim til Íslands á ný, þar sem hann var að lokum dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.