Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. 2018 bárust fréttir af mikilli aukningu á neyslu á krakki og að neytendurnir væru allt niður í fimmtán ára börn. Fréttablaðið hefur eftir Valgerði að þeir sem noti krakk séu ungt fullorðið fólk.
Krakk er kókaín sem er blandað við natron og vatn og hitað til að kristallar myndist. Það er síðan reykt. Krakk varð til í kringum 1970 og á níunda áratugnum varð neysla þess að faraldri í bandarískum stórborgum.
Fréttablaðið hefur eftir Valgerði að auk krakksins sé hópur sem sprauti sig með kókaíni í æð og þar gildi sömu lögmál og um krakkið. Þessar aðferðir séu notaðar til að komast hraðar í vímu, eins og þegar sterkt áfengi er drukkið í stað bjórs. „Allt sem virkar hraðar og kemst hraðar inn í líkamann hefur meiri eituráhrif. Það eru hærri skammtar sem komast inn,“ er haft eftir Valgerði sem sagði að þetta væri einnig meira ávanabindandi.
Hún sagði að þeir sem koma á Vog eftir neyslu krakks eða kókaíns í æð séu oft mjög illa á sig komnir og hafi gengið nærri líkama sínum. „Þetta hefur meðal annars slæm áhrif á hjartað, fólk er illa nært og með fullt af geðrænum einkennum á borð við ofsóknarbrjálæði,“ sagði hún.