Aðeins tvö innanlandssmit af COVID-19 greindust í gær og voru báðir í sóttkví. Samkvæmt því sem fram kom á upplýsingafundi dagsins hafa mörg sýni verið tekin undanfarna daga og hefur almenningur því brugðist við ákalli almannavarna um að mæta í sýnatöku ef vart verður einkenna.
Þrátt fyrir þetta telur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ekki tímabært að slaka á almennum sóttvarnatakmörkum. Núverandi reglur eru í gildi til 17. febrúar. Þórólfur útilokar þó ekki að slakað verði á fyrr.
Undanfarið hafa mun fleiri afbrigði veirunnar greinst á landamærum en innanlands. Hið bráðsmitandi breska afbrigði veirunnar hefur greinst hér á landi en ekki breiðst út. Suður-afríska og brasilíska afbrigðið sem einnig eru meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar hafa hins vegar ekki greinst hérlendis. Þórólfur fullyrðir að aðgerðir á landamærum hafi verið mjög áhrifaríkar og að stjórnvöld í nágrannaríkjum séu nú víða að leggja til svipaðar aðgerðir á landamærum.