fbpx
Sunnudagur 09.febrúar 2025
Fréttir

Draumurinn um parhús í Kópavogi breyttist í martröð – Brúnir taumar láku niður nýmálaða veggi

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 28. janúar 2021 19:00

mynd/samsett vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt seljanda fasteignar við Goðasali í Kópavogi til að greiða kaupanda fasteignarinnar rúmar sex milljónir í skaðabætur auk tveggja milljóna í málskostnað vegna galla á fasteigninni. Þótti sannað að seljandinn hafi mátt vita að galli væri á frágangi á þaki hússins.

Kaupendurnir, karl og kona, keyptu húsið í júní árið 2016 á 65,5 milljónir króna. Seljandinn hafði þá átt húsið í ein ellefu ár.

Strax í desember varð parið var við brúna tauma sem láku frá glugga í eldhúsi og niður að svalahurð. Myndaðist þar dökklitaður pollur. Kaupendurnir leituðu skýringa hjá seljanda hússins sem sagði þeim að kanna hvort útloftun frá háfi í eldhúsi væri nægjanleg. Ekkert kom úr þeirri skoðun.

Þegar vandinn stigmagnaðist svo veturinn á eftir, 2017/2018, hafi fólkið leitað liðsinnis smiðs sem rauf gat á loftið. Við blasti blautt timbrið í þakinu. Því næst komu skoðunarmenn Frumherja á staðinn sem grandskoðuðu loftið. Niðurstaðan var sú að miklir vankantar væru á frágangi útloftunar úr þaki hússins. Brúnu taumarnir reyndust vera raki úr þaki hússins sem fann sér leið í gegnum loftið.

Kostnaðurinn vegna framkvæmdanna var metinn rúmar sex milljónir. Kröfðust nýir eigendur því rúmra sex milljóna úr hendi seljanda og stefndu henni því fyrir héraðsdóm.

Í stefnunni segja kaupendurnir að húsið hafi verið nýmálað við kaupin sem gefi til kynna að seljandinn hafi verið meðvitaður um ástand þaksins. „Útilokað sé miðað við umfang gallans að það hafi verið í fyrsta sinn sem lekataumar komu niður veggina,“ sagði í kröfugerð stefnanda.

Segir þar jafnframt að þegar loftið var opnað og einangrun fjarlægð hafi blasað við að ástand þaksins væri í raun miklu verra en fyrsta skoðun gaf til kynna. Sperrur hafi þá verið svo fúnar og myglan slík að heilsuspillandi hafi verið að búa í húsinu og hætta á að þakið myndi gefa sig. „Það sé mat matsmanns að stór hluti borðaklæðningar í efri hluta þaksins (neðan við mæni) sé fúinn og hafi ekki lengur burðargetu eins og heil borðaklæðning. Það sé einnig mat matsmanns að hluti borðaklæðninga hafi verið svartur af raka og myglu og hafi verið umtalsverð ummerki um myglu í klæðningunni,“ segir í dómnum.

Þar segir jafnframt: „[…] að ekki sé hægt að fara í viðgerð á þakinu með öðrum hætti en að rífa bæði þakstál og þakpappa af þakinu. Fjarlægja þurfi alla borðaklæðningu og einangrun af þakinu og endurnýja. Einnig þurfi að hreinsa rakasperru, hefla myglu af sperrum og lagfæra loftrásir þaks í útveggjum.“

Var kostnaðurinn vegna viðgerðanna sjálfra metinn tæpar fimm milljónir, kostnaður við hreinsun, viðgerð á veggjum og málum rúm milljón, og loks afleiddur kostnaður vegna röskunar á heimilishaldi fjölskyldunnar um 700 þúsund. Samtals rúmar sex milljónir króna, sem fyrr sagði.

Dómurinn er býsna afdráttarlaus í sinni niðurstöðu. Í niðurstöðukafla dómsins segir að gerðar séu þær væntingar í fasteignaviðskiptum að fasteignin uppfylli skilyrði laga og reglugerða um mannvirkjagerð, nema annað sé tekið fram. Þá er það sérstaklega tekið fram að raunkostnaður vegna framkvæmdanna hafi verið miklu hærri en endurspeglast í dómkröfum, eða nær 17 milljónum.

Í ljósi niðurstöðu dómarans um að seljanda hafi mátt vera ljóst að fasteignin væri háð alvarlegum galla, var seljandinn dæmdur til þess að greiða kaupendum fasteignarinnar rúmar sex milljónir í skaðabætur og aðrar tvær í málskostnað, sem fyrr sagði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda