Fanney Lind Thomas, leikmaður Breiðabliks í úrvalsdeildinni í körfubolta, birtir í dag á Twitter tæplega níu ára gömul spjallskilaboð frá þáverandi þjálfara sínum.
Skilaboðin eru í besta falli sérkennileg en um er að ræða einhvers konar skrýtlu með kynferðislegu ívafi. Sjá nánar tengil undir fréttinni. Í tísti sínu sem fylgir skjáskotinu segir Fanney:
„22 ára gömul fékk ég þessi skilaboð frá þjálfara í deildinni. Mjög svo óviðeigandi frá rígfullorðnum giftum manni. Slík hegðun fjölmargra þjálfara sem ég veit um gagnvart ungum stúlkum í deildinni hefur liðist í öll þessi ár.“
Fanney Lind er rúmlega þrítug en hún gekk til liðs við Breiðablik árið 2017. Hún er mjög reyndur leikmaður. Uppeldisfélag hennar var Hamar í Hveragerði en auk Breiðabliks hefur hún meðal annars spilað með Fjölni og Tindstól.
Frétt DV í gærkvöld þess efnis að þekktur körfuboltadómari hafi verið rekinn frá dómgæslu á vegum KKÍ eftir að hann fór á fjörurnar við leikmann í rafrænum skilaboðum hefur vakið mikla athygli og hafa bæði Vísir.is og man.is fjallað um málið í dag. Ónefndir viðmælendur DV hafa staðhæft að slík hegðun sé ekki einsdæmi meðal körfuboltadómara en óviðeigandi hegðun þjálfara gagnvart kvenkynsleikmönnum sé algengari. Engar frásagnir eða nánari útlistarnir á slíku háttalagi hafa þó verið fluttar og engan veginn hægt að átta sig á umfangi vandamálsins.
DV hafði samband við Fanney Lind vegna málsins. Hún gat ekki gefið kost á viðtali þar sem hún væri að undirbúa sig fyrir leik kvöldsins hjá Breiðablik sem hófst kl. 20.15. Hún setti sig ekki upp á móti fréttaflutningi af tístinu né myndbirtingu.
22 ára gömul fékk ég þessi skilaboð frá þjálfara í deildinni. Mjög svo óviðeigandi frá rígfullorðnum giftum manni. Slík hegðun fjölmargra þjálfara sem ég veit um gagnvart ungum stúlkum í deildinni hefur liðist í öll þessi ár. #timeisup pic.twitter.com/btCeGCPzN8
— Fanney Lind Thomas (@FanneyL) January 27, 2021