Sérkennileg tilkynning barst til lögreglu rétt fyrir kl. 16 í dag er varðaði hóp gæsa sem höfðu sest niður til hvíldar í Bríetartúni. Gæsirnar neituðu að færa sig fyrir umferð, að því er segir í dagbók lögreglu um málið. „Gæsirnar gáfu þó eftir að lokum,“ segir einnig í dagbókinni.
Af öðrum tíðindum dagsins má nefna að á hádegi var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 105 í Reykjavík, en þar rákust saman bíll og rafhlaupahjól. Ekki er vitað um meiðsli eða tjón.
Um fjögurleytið var tilkynnt um öskrandi mann í miðbænum sem sýndi af sér ógnandi hegðun við aðra vegfarendur. Maðurinn var farinn af vettvangi er lögreglu bar að.
Í hádeginu var tilkynnt um hestamann sem féll af baki í hverfi 110. Ekki er vitað um meiðsli en hestamaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar.