Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann í átta mánaða fangelsi fyrir röð afbrota ofan á langan afbrotaferil.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa stolið Fitbit Versa úri úr verslun Símans í Kringlunni að verðmæti 33 þúsund, fyrir að stela bakpoka úr verslun Fíladelfíu kirkjunnar að Hátúni í Reykjavík með seðlaveski, greiðslukortum, vegabréfi, fartölvu og myndavél, og fyrir að hafa stolið bifreið og ekið henni um miðbæ Reykjavíkur í mars í fyrra án ökuréttinda.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess að maðurinn yrði dæmdur til refsingar fyrir brot sín og að hann greiði allan kostnað við rekstur málsins. Þá var upptöku á sitthvorri rivotril og contalgin töflunni krafist.
Maðurinn játaði skýlaust sök sína og var litið til þess við ákvörðun refsingar. Hins vegar var líka litið til þess að maðurinn á sér langan brotaferil sem spannar aldarfjórðung. Á þeim tíma hefur hann hlotið samtals 15 refsidóma fyrir auðgunarbrot, ítrekuð fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot, umferðarlagabrot. Síðast hlaut maðurinn dóm í apríl 2017 fyrir þjófnað og nytjastuld. Refsingin sem manninum var þá dæmd var hegningarauki við dóm sem hann fékk árið 2016 fyrir þjófnað, vörslu fíkniefna, vopnalagabrot, ítrekuð umferðarlagabrot og líkamsárás.
Manninum er nú í áttunda skipti gerð refsing fyrir akstur sviptur ökuréttindum.
Þótti dómaranum átta mánaða fangelsi við hæfi. Þá skal maðurinn greiða málskostnað vegna málsins, samtals 94 þúsund krónur.