Ótti ríkir gagnvart nýjum og nýlegum afbrigðum kórónuveirunnar sem talin eru geta verið meira smitandi en þau afbrigði veirunnar sem lengst af var glímt við. Mest er þar rætt um breska afbrigðið, eða bresku veiruna. Hún hefur greinst hér á landamærum og eitthvað í innanlandssmitum, en ekki breiðst út.
Í kvöldfréttum RÚV var rætt við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, en vegna starfs þess fyrirtækis búa Íslendingar við þann lúxus að veirur úr öllum smitum sem eru greind eru raðgreindar. ÍE hefur annast þetta og þannig hefur verið hægt að bera kennsl á ólíkar tegundir veirunnar og öðlast skilning á því hvert ólík afbrigði veirunnar hafa dreift sér.
Kári segir að það sé engan veginn sannað að breska afbrigðið sé miklu meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Stjórnmálamenn hafi tilhneigingu til að ýkja varfærin ummæli vísindamanna um þessi mál. En þó að svartsýnustu spár manna um smitnæmi bresku veirunnar reyndust réttar þá telur Kári að Íslendingar geti vel ráðið við að halda henni í skefjum. Sóttvarnaaðgerðir hér á landi hafi hingað til dugað til að halda faraldrinum vel í skefjum á meðan hann blossi upp í hæstu hæði í nágrannalöndum okkar.
Sífellt fleiri tilfelli bresku veirunnar greinast hérlendis, oftast á landamærum, en „við höfum samt ekki séð hana breiðast út eins og eld í sinu,“ segir Kári. „Hún virðist ekkert vera erfiðari að hemja heldur en önnur form af þessari veiru, að minnsta kosti í okkar höndum.“
„Við höfum mjög skynsamlegar ráðstafanir á landamærum sem hafa dugað til að halda þessu landi hreinu. Koma þessarar bresku veiru, þessa breska afbrigðis, til landsins hefur ekki breytt því. Þannig að ég held að þrátt fyrir þetta breska afbrigði og þrátt fyrir það að svartsýnustu skoðanir manns á þessu breska afbrigði reyndust vera réttar þá kunnum við aðferðir sem eiga að vera nægilega góðar til þess að halda henni í skefjum. Það er ósköp einfalt,“ sagði Kári.