Bjartmar Leósson, sem kallaður er Hjólahvíslarinn, vegna fádæma atorku sinnar við að endurheimta þjófstolin reiðhjól og ýmsa skylda muni, varð fyrir því í dag, mánudaginn 25. janúar, að brotist var inn bílinn hans. Engu var stolið en hurðarspjaldið er ónýtt eins og mynd ber með sér og búið var að róta í bílnum.
Bjartmar birti myndir af verksumerkjum í Facebook-hópi sínum, Hjóladót tapað, fundið eða stolið og skrifaði jafnframt:
„Þá er búið að brjótast inn í bílinn minn. Engu stolið en hurðarspjaldð ónýtt og búið að róta í öllu. Bíllinn var ekki mjög langt frá ákveðnum stað sem má víst ekki nefna opinberlega. Væri ekkert voðalega hissa ef einhver þaðan hefði verið að verki.“
Bjartmar segir í samtali við DV að það sé skrýtin tilfinning að verða fyrir afbroti sem þessu:
„Skrítin tilfinning. Er auðvitað reiður en það eru sterkar líkur á að hér hafi langt leiddir fíklar verið á ferð svona miðað við hvar bíllinn var staðsettur. Svo með reiðinni er líka ákveðinn skilningur á því sturlaða hugarástandi sem fólk kemst í þegar það vantar næsta skammt. Þau ráða ekki við sig.“
Bjartmar segir að innbrot í bíla, ýmis nytjaþjófnaður og hjólaþjófnaður séu mjög oft verk langt leiddra fíkla og þetta vandamál sé hluti af stóru böli:
„Fólk í harðri neyslu sem eyðir framfærslunni á fyrstu tveimur dögunum og stelur svo restina af mánuðinum,“ segir hann.