Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari DV við Kaldasel um 9-leytið í kvöld en eldur kviknaði aftur í íbúðarhúsi þar. Húsið stórskemmdist í bruna í morgun og skíðlogaði í því eins og fjölmiðlar greindu frá.
Eldurinn blossaði aftur upp á áttunda í tímanum í kvöld en slökkvistarf stendur yfir.
Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við Fréttablaðið að eftir stóra og mikla bruna geti kviknað í aftur. „ Það liggur mikill hiti í efni og timbri og því sem hefur brunnið og þá á það til að kvikna aftur í. Þetta er ekki óþekkt og þess vegna erum við oft með vakt löngu eftir slíka bruna. Að vísu vorum við farnir af vaktinni þegar eldurinn blossaði á ný í kvöld,“ segir Sigurjón við Fréttablaðið.
Samkvæmt sömu frétt gengur slökkvistarf vel.