Um hádegið í dag bárust fréttir af miklum viðbúnaði vegna slyss í Kleifarvatni. Þegar viðbragðsaðilar mættu á staðinn komst í ljós að um misskilning væri að ræða, það var vissulega maður í vatninu en sá var bara að kafa, einn með sjálfum sér. Maðurinn sem um ræðir er Mikael Dubik en Vísir náði tali af honum eftir að hann fór upp úr vatninu. Mikael hefur oft kafað áður í vatninu og þá yfirleitt einn.
Þegar Mikael leit upp úr vatninu sá hann allan þann viðbúnað sem viðbragðsaðilar voru með, þyrlu, báta og slökkvilið. Viðbragðsaðilar höfðu fengið tilkynningu í hádeginu að maður hefði gengið í vatnið og voru því viðbragðsaðilarnir kallaðir til og sendi Landsbjörg út tilkynningu þess efnis fljótlega síðar.
„Það er gott að vita til þess að einhver hugsar svona fallega um mann en ég geri þetta nokkuð oft og var bara að æfa mig,“ sagði Mikael í samtali við Vísi og bætti við að sér fyndist leiðinlegt að hafa valdið þessum viðbrögðum. Þó sagði hann að gott væri að vita af því að fólk er til staðar með þessi góðu viðbrögð ef eitthvað bjátar á.