Ljóst er að starfsemi Háskólans mun raskast á næstunni. Í tilkynningu sem Veitur sendu frá sér í gær kom fram að skömmu fyrir klukkan eitt í fyrrinótt hafi mikill kaldavatnsleki komið upp í lokahúsi vatnsveitu sunnan við aðalbyggingu HÍ. Lekinn varði í 75 mínútur og runnu um 500 lítrar á sekúndu. Í heildina runnu um 2.250 tonn af vatni út. Um stóra stofnæð var að ræða og því var vatnsmagnið mikið. Unnið hefur verið við endurnýjun hennar og öðrum lögnum á Suðurgötu að undanförnu.
Morgunblaðið hefur eftir Kristni Jóhannessyni, sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs HÍ að mikið tjón hafi orðið á byggingum skólans og að starfsemi hans muni raskast töluvert á næstunni. Haft er eftir honum að vatn hafi flætt inn í kjallara og jarðhæðir. „Það skemmdist allt sem fyrir verður sem þolir ekki vatn. Veggir líka,“ er haft eftir honum.
Vatn flæddi inn í aðalbyggingu HÍ, Árnagarð, Lögberg, Gimli og Háskólatorg.