Skotið var á húsnæði Samfylkingarinnar við Sóltún 26 í miðborg Reykjavíkur í nótt. Samkvæmt heimildum DV virðast skotgötin vera sex og voru nægilega öflug til þess að brjóta rúður. Skrifstofur Samfylkingarinnar eru á jarðhæð hússins.
Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, staðfestir að þetta hafi átt sér stað en gat að öðru leyti ekki tjáð sig um málið. Það sé nú rannsakað af lögreglu.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagðist ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við DV að rannsakendur lögreglunnar hefðu lokið störfum á vettvangi og væru nú komnir í hús á Hverfisgötu. Málið væri nú rannsakað. Jóhann staðfesti enn fremur við DV að fleiri sambærileg atvik hefðu átt sér stað víða um borgina undanfarin misseri. Það væri nú skoðað hvort þau atvik væru tengd.