Það sauð á Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara í handbolta í viðtali við RÚV eftir leik Íslands og Frakklands á HM í Egyptalandi í dag, leik sem Ísland tapaði naumlega, en leikur liðsins þótti mjög góður.
„Það er svo furðulegt að upplifa það að þegar við erum að fara hér á stórmót og það vantar fyrirfram þrjá lykilleikmenn og raunverulega síðan fjóra í framhaldinu,“ sagði Guðmundur og líkti því við að Norðmenn væru án nokkurra af sínum helstu stórstjörnum, sagði síðan: „Svo bætist enn einn miðjumaðurinn við, þá er ég að tala um Hauk Þrastarson, þannig förum við inn í mótið. En okkur er ýtt alltaf inn í eitthvert hlutverk við erum ekki með akkúrat mannskapinn til að klára.“
Guðmundur hækkaði síðan róminn og sagði með þungri áherslu: „Það er algjörlega óþolandi hvernig sérfræðingar RÚV eru að tjá sig á niðrandi hátt um þetta, talandi um eftir leikinn á móti Sviss að ég og liðið sé ráðalaust. Þetta er algjört niðurrif og svo niðrandi ummæli, og þetta hefur farið mjög illa í hópinn og mig hvernig þetta hefur verið.“
Guðmundur er fyrst og fremst að vísa í gagnrýni Loga Geirssonar, fyrrverandi landsliðsmann undir stjórn Guðmundar sem meðal annars sló í gegn í landsliðinu sem vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum árið 2008, og handboltasérfræðings hjá RÚV. Logi hefur gagnrýnt sóknarleik liðsins í tapleikjum gegn Portúgal og Sviss og hann segir liðið hafa fallið á stóru prófunum. Honum þykja leikmenn vera ragir og taugaóstyrkir og sóknarleikur liðsins fyrirsjáanlegur. Íslenska liðið er ungt landslið í mótun en Logi hefur sagt að hann telji að ungt lið eigi líka að setja markið hátt.
Guðmundur var mjög harðorður í garð Loga í viðtalinu og benti á að Logi hefði gagnrýnt sig í þrjú ár fyrir það varnarafbrigði sem landsliðið spilar undir hans stjórn en nú sé hann farinn að hrósa vörninni. Guðmundur bendir á að það taki tíma að æfa og þróa hlutina og þetta sé dæmi um það. Hann kallar gagnrýni Loga blaður og sagði: „Auðvitað hlusta ég ekki á svona blaður.“
Logi var ánægður með frammistöðu liðsins gegn Frakklandi í dag en lýsti yfir óánægju með árangurinn í heild. Ísland mætir firnasterku liði Noregs á sunnudag og verður það síðasti leikurinn á mótinu.
↨