Af ljósmyndum af skrifborði nýs Bandaríkjaforseta Joe Biden að dæma hefur Biden látið fjarlægja hnapp á skrifborðinu sem forveri hans lét koma fyrir. Mun eini tilgangur takkans hafa verið að láta bryta forsetans vita að forsetann þyrsti í Diet Coke. Trump er annálaður gos svelgur, og er hans uppáhalds drykkur Diet Coke.
Í umfjöllun bandarísku fréttaveitunnar The Hill segir að Trump hafi látið koma takkanum fyrir til þess að tryggja öruggt flæði gossins inn á skrifstofu sína.
Skrifborð Bandaríkjaforseta er frægt og heitir á móðurmálinu The Resolute Desk. Það mun hafa verið smíðað úr endurnýttri eik úr skipinu HMS Resolute. Skrifborðið vegur heil 590 kíló og hefur í tvígang verið breytt. Fyrst af forsetanum Franklin Delano Roosevelt, sem lét setja hurðir framan á það til þess að fela gjörð sem hann var með á fótunum. Skrifborðið var svo hækkað um tvær tommur árið 1961.
Á fyrstu ljósmyndunum úr skrifstofu Bandaríkjaforseta sem bárust strax sama dag og Biden sór embættiseið sinn, á miðvikudaginn síðastliðinn, mátti sjá að takki forvera síns var horfinn.
Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því á forsetatíð Trumps að hann neytti reglulega tólf dósa af Diet Coke á hverjum degi. Þá skrifaði fyrrum starfsmaður í Hvíta húsinu, Chris Sims, í bók sinni Team of Vipers, að Trump stríddi reglulega gestum sínum með því að segja takkann tengjast kjarnorkuvopnabúri ríkisins áður en hann ýtti svo á hann. „Þegar brytinn birtist svo með Diet Coke í glasi á silfurfati sprakk svo Trump úr hlátri,“ skrifar Sims.