Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að oft virðist það unga fólk sem deyr skyndidauða, sem einnig kallast að verða bráðkvaddur, vera heilsuhraust en undir niðri leynist sjúkdómur eða hjartagalli sem enginn vissi af.
Í flestum tilfellum tengist þetta hjartanu eða lungunum og oft er um arfgeng vandamál að ræða. Raflífeðlisfræðilegar truflanir í hjarta eða hjartavöðvasjúkdómar eru algengastir og spilar erfðabreytileiki gjarnan mikilvægt hlutverk.
Margvíslegir utanaðkomandi þættir, á borð við áföll eða mikið álag, bæði andlegt og líkamlegt, geta einnig haft áhrif. Það er sjaldgæft að skyndidauði ungs fólks tengist líferni þess. Ekki tekst alltaf að skýra orsakir skyndidauða þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir.
„Skyndidauði hjá ungum einstaklingi veldur oft gríðarlegum óhug hjá fjölskyldu og í nærumhverfinu því þetta getur verið algerlega ófyrirséð. Þetta er fólk sem virðist vera í blóma lífsins,“ sagði Davíð O. Arnar, hjartalæknir á Landspítalanum, í samtali við Fréttablaðið. Ásamt Gunnari Þór Gunnarssyni, Gunnlaugi Sigfússyni, Helgu Óttarsdóttur, Hirti Oddssyni og Kristjáni Guðmundssyni, læknum, flytur hann fyrirlestur í dag á Læknadögum um skyndidauða ungs fólks.
Um 200 manns deyja skyndidauða hér á landi árlega, meirihlutinn er fólk yfir fertugu og skiptir lífsstíll og aldur oft meiru hjá þessum hópi en þeim sem eru undir fertugu. Kransæðasjúkdómur og afleiðingar hans eru þar í lykilhlutverki.
Fréttablaðið hefur eftir Davíð að skyndidauði geti átt sér stað í öllum aldurshópum, einnig hjá börnum. Ungt fólk geti dáið skyndidauða hvar og hvenær sem er, í vöku eða svefni.
Læknarnir munu einnig fjalla um hvernig er hægt að greina orsakir skyndidauða ungs fólks, meðhöndla og fyrirbyggja. Ein af leiðunum er að rannsaka þá vel sem hafa orðið fyrir áfalli og lifað af og nánustu fjölskyldu þeirra því oft geti verið um erfðagalla að ræða. skyndidauði er oft fyrirvaralaus en stundum geta vísbendingar verið komnar fram. „Það er auðvitað erfitt að fyrirbyggja hluti sem ekki er kannski nein vísbending um. En ef það er saga um ótímabær dauðsföll eða alvarlegar hjartauppákomur í ættinni liggur beinast við að láta athuga sig,“ sagði Davíð.