Hversu langt eiga borgarar að ganga í því að grípa inn í þegar þeir verða vitni að afbrotum? Í huga Margrétar Gígju Þórðardóttur, táknmálsfræðings sem býr í Laugarneshverfi, þá er það engin spurning. Hún lenti í óþægilegum aðstæðum í gær er hún stóð hjólaþjóf að verki og kom í veg fyrir að honum tækist ætlunarverk sitt. Maðurinn brást reiður við afskiptunum og var mjög ógnandi, en eftir um hálftíma þjark kom lögregla á vettvang og tók málið yfir.
Þetta byrjaði með því að Margrét sá mann á vespu eiga við reiðhjól fyrir utan Ármannsheimilið þar sem íþróttaæfing var í inni í fimleikasalnum. „Það eru ekki margir sem eru bæði á reiðhjóli og vespu í einu svo þetta var grunsamlegt,“ segir Margrét í samtali við DV en hún lýsir atvikinu nokkuð ítarlega í færslu inni í Facebook-grúppu hverfisins:
„Í morgun líkt og alla morgna fór ég í morgungöngu með hundinn minn, allt er kyrrt og fallegt – er alveg komin að blómatorginu sem er fyrir aftan Ármannsheimilið og milli þríhyrnings. Sé hjól við eitt tré og það er augljóslega æfing inni í fimleikasalnum. Sé líka mann á vespu sem er eitthvað að brasa – er ekkert að kippa mér upp við hann – nema svo þegar ég er komin að blómatorginu sé ég að hann færir sig á vespunni að reiðhjólinu og kikjir eitthvað á það og tekur það og hann er enn á vespunni og ætlaði augljósla að fara „reiða“ hjólið.
Ég segi honum að láta hjólið vera – hann ætti það ekki. Hann brást hins vegar mjög illa við þessu og fer af vespunni og verður frekar ógnvekjandi – kemur að mér og ég sé og finn að hann er drukkinn og eitthvað meira. Ég var dauðhrædd – fer að fimleikasalnum og banka eins fast og ég get og hann stendur fyrir aftan mig öskrandi en ég held enn í hjólið – ég banka og banka og sé að það er fólk inni en enginn heyrir í mér.
Hann fer frá mér og segir þá – fyrst þú ert svona viss um að ég eigi ekki hjólið – hringdu þá í lögguna – ég sagði honum bara að fara og láta mig í friði en hann gaf sig ekki og var aftur frekar ógnvekjandi. Endanum hringdi ég í lögguna og þau komu – fannst ég þurfti að bíða að ansi lengi eftir þeim- en það er bara mín tilfnning.
Löggan kom sagði mér að ég mætti fara – ég gjörsamlega brotnaði niður – bæði vegna þess að ég var alveg svakalega hrædd og fannst þessi atburður mjög óþægilegur.
Af hverju er ég að segja ykkur frá þessu –því við eigum að skipta okkur af – athuga og spyrja því á meðan á þessu var, var fólk að hlaupa framhjá – hjóla framhjá en enginn virtist kippa sig við að það var eitthvað skritið á seyði – meina það er ekki eðlilegt að einhver kona sem heldur í hjól og í hund bankandi eins fast í rúðu við fimleikahúsið – hugsa ef ég væri barn sem væri á leið í skólann og barnið myndi líklega segja það sama – hey þú átt ekki hjólið og hann myndi bregðast eins við líkt og hann gerð við mig – ég fékk alveg vægt áfall – og ég er fullorðin !
Við eigum að skipta okkur af – ALLTAF.“
„Það er allt í lagi með mig núna en ég var í sjokki í gær,“ segir Margrét og bætir því við að það hafi aukið á ótta hennar að hún varð fyrir árás ókunnugs manns í Laugardalnum fyrir um átta árum. „Aðallega þess vegna varð ég svona ógeðslega hrædd í gær. Ég nötraði af hræðslu.“
Þá var hún með hundstíkina sína lausa sem gelti að manni sem þar átti leið um. Margrét kallaði tíkina til sín og ávítaði hana. „Ég vildi síðan vera kurteis, fór að manninum og bað hann innilega afsökunar. Hann svaraði með því að kýla mig í andlitið og sparka í hundinn.“ Segir hún að sá maður hafi verið í mjög annarlegu ástandi og að öllum líkindum undir áhrifum fíkniefna. „Ég kærði en það var ekki hægt að gera neitt í því, ég gat lítil kennsl borið á manninn önnur en þau að hann var í annarlegu ástandi.
Margrét tekur fram að maðurinn fyrir utan Ármannsheimilið í gær hafi ekki lagt á hana hendur. „En hann var mjög reiður og ógnandi.“ Að sögn hennar var maðurinn mjög drukkinn.
En hvers vegna tekur hún slíka áhættu, og það nánast lömuð af hræðslu?
„Þetta er bara ég,“ segir hún og hlær. Réttlætiskenndin og hvötin til að gera borgaralega skyldu sína virðist öllu yfirsterkari á slíku augnabliki. „Við eigum að grípa inn í og við eigum að skipta okkur af,“ segir hún ákveðin.
Hún gefur í skyn að kannski megi ekki gera of mikið úr afskiptaleysi vegfaranda af uppákomunni í gær, þetta hafi átt sér stað í dálítilli fjarlægð frá göngustígnum, en nokkrir fóru þar hjá án þess að skipta sér af. Enginn greip inn í aðstæður. „Ég var svo frosin að ég gat ekki hrópað,“ segir Margrét og því má vel vera að enginn hafi áttað sig á því að eitthvað væri að.
Sem betur fer fór málið vel, lögregla kom á vettvang og maðurinn náði ekki að taka með sér reiðhjól sem að öllum líkindum er í eigu barns eða ungmennis sem æfir hjá Ármanni.