Hún sagðist jafnframt telja að skólinn, bæði kennarar og nemendur, hafi brugðist hárrétt við. Lilja fundar með skólameisturum í dag þar sem öryggismál verða rædd sérstaklega og farið verður yfir það sem gerðist í Borgarholtsskóla.
„Ég legg áherslu á að við búum í frjálsu og mjög góðu samfélagi og við viljum halda í þá samfélagsgerð. Við leggjum höfuðáherslu á að umhverfi skólasamfélagsins sé öruggt og viljum tryggja öryggi allra,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið.
Skólameistarafélag Íslands er langt komið með gerð áætlunar um viðbrögð við mögulegri vá í framhaldsskólum. Morgunblaðið hefur eftir Kristni Þorsteinssyni, formanni félagsins, að það hafi átt frumkvæðið að gerð þessarar áætlunar. Reiknað er með að vinnu við áætlunina ljúki á þessu skólaári.
Í áætluninni er tekið á náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta en einnig er tekið á skotárásum, hryðjuverkaárásum og öðru því líku að sögn Kristins sem sagði að áður hafi komið til átaka í íslenskum skólum en atvikið í Borgarholtsskóla sé eitt það versta sem hann muni eftir.
Piltur var í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins.