Í tilkynningu frá Landspítalanum segir að vonast sé til að fyrstu niðurstöður skimana liggi fyrir um hádegisbil. Þeir sem fara í sýnatöku eru nú annað hvort í sóttkví eða vinnusóttkví B. Að auki hefur verið gripið til ýtrustu sóttvarnaráðstafana á deildinni.
Ekki er vitað hvernig sjúklingurinn smitaðist en talið er líklegt að hann hafi verið smitaður við innlögn síðdegis á þriðjudaginn. Unnið er að smitrakningu. Sjúklingurinn hefur verið fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi og í einangrun.
Morgunblaðið hefur eftir Má Kristjánssyni, yfirmanni smitsjúkdómadeildar Landspítalans og formanni sóttvarnanefndar, að spítalinn sé nú í sömu stöðu og þegar smit komu upp hjá sjúklingi á hjartadeild spítalans á þriðjudaginn. Bregðast þurfi við á sama hátt. „Við vitum ekkert um þetta fyrr en við erum búin að grennslast meira fyrir, en þetta hefur meira það yfirbragð að vera raunverulegt smit,“ sagði hann.
Hann vildi ekki tjá sig nánar um sjúklinginn eða hvort hann hafi verið í herbergi með fleira fólki. Varðandi alvöru málsins sagði hann að verra væri að smit komi upp á blóð- og krabbameinsdeild en hjartadeild. „Þarna er fólk sem stendur höllum fæti út af sínum undirliggjandi veikindum og meðferð. Ég er ekki að segja að það sé gott að fá þetta inni á hjartadeild en það er sýnu verra að hafa þetta á þessari deild,” sagði hann í samtali við Morgunblaðið.