Þrjátíu og níu ára gamall maður, Jón Rúnar Pétursson, hefur verið dæmdur í 21 mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Jón Rúnar henti konu fram af svölunum í íbúðinni sinni sem staðsett er á annarri hæð í Hólahverfinu í Breiðholti þann 16. september árið 2019. RÚV greindi frá dómnum í síðustu viku en nú hefur Mbl.is birt dóminn.
Greint var frá málinu í dagbók lögreglu á sínum tíma en lögregla kom á vettvang og handtók Jón Rúnar. Var hann úrskurðaður í mánaðarlangt gæsluvarðhald. Hann var á skilorði er atvikið átti sér stað. Jón Rúnar er vélfræðingur að mennt.
Konan slasaðist alvarlega en í dómnum kemur fram að hún hafi hlotið heilahristing, blæðingar og bólgur undir húð í andliti ásamt skurðum yfir kjálka vinstra megin, brot á tveimur stöðum í neðri kjálka, brot í kinnholu í efri kjálka, brotnar tennur og brot á mjaðmabeini.
„Eina sem ég man er það að það er tekið svona í mig, þú veist og fúff“
Í dómnum er vísað í skýrslu sem tekin var af konunni, viku eftir að henni var hent fram af svölunum. „Hún kvaðst hafa verið í heimsókn hjá ákærða. Þau hefðu líklega verið eitthvað að rífast en allt í einu hafi ákærði hent henni fram af svölunum. Hafnaði hún því alfarið að hafa hoppað niður og kvaðst þess viss því þá hefði hún lent betur,“ segir í dómnum en Jón hafði haldið því fram að hún hafi hoppað sjálf fram af.
Þá kemur fram í dómnum að Jón hafi sagt í skýrslutöku að hann og konan hafi átt í ástarsambandi. Jón Rúnar vildi meina að hún hefði ráðist á hann með hníf eða barefli eftir að hann sagðist vilja slíta sambandinu. Konan sagði sjálf í skýrslutöku að hennar minning um málið væri ekki eins, hún sagðist ekki muna eftir því að hafa ráðist á hann.
Hún sagði að Jón hafi tekið í sig og ýtt henni fram af svölunum. „Eina sem ég man er það að það er tekið svona í mig, þú veist og fúff,“ sagði konan.
Konan fór fram á um 7 og hálfa milljón í bætur frá Jóni, hún sagðist krefjast 5 milljóna í miskabætur og 2 og hálfa milljón í skaðabætur vegna tannviðgerða. Jón var að lokum dæmdur til að greiða henni 3,7 milljónir.
Með metamfetamín við Árbæjarkirkju
Þá var Jón Rúnar einnig ákærður fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Hann ók þungu bifhjóli í maí árið 2019 en þá var búið að svipta hann ökurétti, auk þess sem hann var undir áhrifum ávana- og fíkniefna þegar lögreglan stöðvaði hann. Jón Rúnar var einnig ákærður fyrir að hafa haft 12,59 grömm af metamfetamíni í vörslu sinni þegar lögreglumenn leituðu á honum á bílastæði við Árbæjarkirkju.
Jón Rúnar játaði umferðar- og fíkniefnalagabrotin og var einnig sakfelldur fyrir þau.