Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Ástæðan sé trúnaðarbrestur umboðsmanns Pfizer í Skandinavíu en það er dönsk kona að nafni Mette. Hún sat fund sem Þórólfur og Kári áttu með vísindamönnum hjá Pfizer. Tveimur dögum síðar fékk Kári skilaboð frá yfirmanni dönsku sóttvarnastofnunarinnar, Statens Serum Institut, um að Danir hefðu átt í viðræðum við Pfizer.
„Hann sagði að Mette hefði sagt þeim frá viðræðunum og hann ætlaði að reyna að sjá til þess að Danir fengju að vera með,“ hefur Fréttablaðið eftir Kára.
Haft er eftir Kára að það sé fráleitt að Íslendingar og Danir geti verið saman í þessu. Ísland hafi sérstöðu og hér á landi sé hægt að vinna góða rannsókn. „Mette hafði ekki heimild til að segja frá þessu, hún kjaftaði frá, og þeir ætla að reyna að lauma sér inn í þetta á einhvern máta sem ekki er hægt,“ sagði hann. Aðspurður sagðist hann ekki vita hver staðan í málinu sé núna en búist við að heyra frá Pfizer fyrri hluta vikunnar.