Anton Kristinn Þórarinsson, athafnamaður, var upplýsingagjafi lögreglunnar á árum áður samkvæmt þeim trúnaðargögnum lögreglu og héraðssaksóknara sem lekið hafa út og eru nú til umfjöllunar fjölmiðla. Gögnin varða rannsókn lögreglu á meintri spillingu lögreglumanns, en sá grunur reyndist ekki eiga við rök að styðjast. Í gögnunum er samt að finna ítarlegar upplýsingar um rannsókn málsins og meðal annars framburður tugs nafngreindra einstaklinga sem líklega treystu því að framburður þeirra yrði aldrei gerður opinber.
Hlutur Antons í skjölunum er eðli málsins stór enda varðaði málið grun um að lögreglumaður þægi greiðslur frá Antoni í skiptum fyrir upplýsingar. Ekki er vitað hvort gagnalekinn sé hættulegur Antoni og geti vakið úlfúð í undirheimum.
Formaður Landsambands lögreglumanna segir þá hlið gagnalekans er snýr að lögreglumönnum vera grafalvarlega þar sem gagnalekar geti almennt stofnað lögreglumönnum í hættu.
Í gögnunum kemur fram að upplýsingasamband lögreglu við Anton hafi hafist árið 2006.
„Rétt er þess að geta hér að kærði og X hafa báðir borið um það að upplýsingasamband þeirra við Anton hafi hafist í kjölfar gæsluvarðhalds sem Anton sætti vegna þessa máls.”
Málið sem um ræðir varðaði handtöku tveggja burðardýra en grunur var uppi um að Anton stæði að baki þeim innflutningi. Anton var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins. Hann var í kjölfarið dæmdur í tveggja ára fangelsi vegna málsins en sýknaður í Hæstarétti.
Samkvæmt gögnunum hafði Anton frumkvæði að því að setja sig í samband við fíkniefnadeild, starfsmenn deildarinnar fóru og sóttu hann á Litla-Hraun í lok gæsluvarðhaldsins og Anton varð í kjölfarið upplýsingagjafi lögreglu „með vitund og samþykki þáverandi yfirmanns deildarinnar,” segir í gögnunum.
Anton lýsti þó upphafi samskiptanna með öðrum hætti. „Hann segist hafa hitt kærða á Goldfinger árið 2005. Kærði hafi sagt honum að hitta sig nokkrum dögum síðar, annars hafi hann verra af. Anton hafi ekki farið og þess vegna lent í 11 mánaða hlustun í tengslum við þetta mál og svo gæsluvarðhaldi. Kærði hafi komið til hans í gæsluvarðhaldinu og sagt „sjáðu hvað ég get gert”. Hann hafi upplifað þetta sem hótun og því ekki þorað öðru en að gerast upplýsingagjafi.”
Anton virðist hafa verið fyrirmyndarupplýsingagjafi en í gögnunum stendur: „Á þessum tíma frá því að upplýsingakerfið var tekið upp, hafi verið skráð 193 samskipti við Anton. Vísar kærði í góðan árangur af upplýsingasamstarfi við Anton og áhættumatið frá 2009. Segir hann Anton mikið hafa spurt og reynt að fá upplýsingar frá þeim sem þeir hafi ekki svarað og gert honum ljóst að svona virki sambandið ekki.”
Hins vegar hafi hættan á að upp um upplýsingasamstarfið kæmist aukist mikið þar sem Anton freistaði þess að nýta sambandið sér til hagsbóta, svo sem með því að hafa samband við lögreglumann í teyminu eftir að hann var handtekinn á Þjóðhátíð en einnig hafi hann montað sig af tengslunum.
„Þá hafi Anton sjálfur oft gortað sig af því að vera með innanbúðarmann hjá lögreglu þegar hann var undir áhrifum. Er þeir hafi gengið á hann hafi Anton neitað því að vera með innanbúðarmann og að vera að bera slíkt út en kannaðist við að hafa heyrt slíku kastað fram af öðrum. Viðbrögð við þessari auknu áhættu hafi verið að kærði hafi dregið sig út úr sambandinu við Anton en ákveðið hafi verið að halda því engu að síður áfram vegna mikils árangurs.”
Í gögnunum er oft tekið fram að Anton hafi verið talinn hafa tengsl við undirheima á Íslandi.
„Upphaf þessara grunsemda má rekja til byrjunar árs 2012. Þá leitaði ungur maður til lögreglu og vildi veita upplýsingar um brotastarfsemi Antons Kristins Þórarinssonar, sem lengi hefur verið þekktur í undirheimunum hér á landi. (Rétt er að taka fram áður en lengra er haldið að upplýsingagjafinn sem hér um ræðir svipti sig lífi nokkrum mánuðum eftir að hann setti sig í samband við lögregluna).”
Anton hefur margsinnis verið til umfjöllunar fjölmiðla. Árið 2000 var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir hlut sinn í smygli á um 4.000 e-pillum til landsins.
Árið 2008 var hann sakfelldur fyrir smygl á um 700 grömmum af sterku kókaíni og gert að sæta tveggja ára fangelsi. Hann var þó sýknaður í Hæstarétti.
Í samtali við Vísi eftir að dómur Héraðsdóms féll sagði hann: „Ég var pottþéttur á sýknu og er eiginlega bara ennþá hlæjandi því þetta er of fyndið til að vera satt.” Var Anton talinn höfuðpaurinn í málinu. Svo reyndist þó ekki því Hæstiréttur sýknaði Anton ári síðar. Af því tilefni sagði Anton: „Ég er alveg í skýjunum með þessa niðurstöðu, réttlætið sigraði að lokum.“
Í dómi héraðsdóms árið 2008 var eftirfarandi skrifað um sakaferil Antons: „Var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað 1996 og aftur 1997. Árið 2000 var hann dæmdur í 5 mánaða fangelsi, þar af 4 mánuði skilorðsbundið fyrir áfengislagabrot og sama ár var hann dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot. Þá hefur ákærði nokkrum sinnum verið sektaður fyrir áfengis- og umferðarlagabrot.“
Anton stefndi íslenska ríkinu árið 2010 vegna ofangreinds máls. Í málsvörn íslenska ríkisins kom fram að nafn Antons hafi ítrekað komið upp í öðrum rannsóknum fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hafi símar hans verið hleraðir frá desember 2005 og búnaði til hljóðupptöku komið fyrir í bíl hans. Þar kom einnig fram að við húsleit í málinu hafi fundist heima hjá Antoni skothylki, táragas, piparúði og 1 milljón króna í seðlum í tveimur umslögum í fataskáp. Íslenska ríkið var sýknað af kröfu hans þar sem aðgerðir lögreglu voru taldar eðlilegar og nauðsynlegar í þágu rannsóknar.
Árið 2013 stefndi Anton aftur íslenska ríkinu vegna húsleitar, leitar í bifreið, símhlustunar, notkunar eftirfararbúnaðs, myndupptöku og hlustunar í íbúð. Þær aðgerðir höfðu verið framkvæmdar vegna gruns um að Anton væri að undirbúa innflutning á fíkniefnum til landsins. Héraðsdómur Reykjavíkur mat að grunur lögreglu væri sterkur og rökstuddur og féllst á aðgerðirnar.
Eins stefndi hann ríkinu vegna handtöku og leitar í bifreið. Í kjölfar áðurnefndra aðgerða var komist að þeirri niðurstöðu að Anton tengdist málinu ekki. Því taldi Anton að hann hefði rétt til skaðabóta vegna rannsóknar að ósekju.
„Þegar atvik málsins eru virt, eins og þau horfðu við þeim sem með rannsókn málsins fóru á þeim tíma er stefnandi var handtekinn, verður að líta svo á að umræddar aðgerðir lögreglu hafi verið eðlilegar og lögmætar. Ekki verður falllist á með stefnanda að handtakan, húsleit og leit í bifreið, símhlustun, eftirfararbúnaður, myndupptaka og hlustun í íbúð, eins og framkvæmd þessa var háttað, hafi ekki verið í samræmi við greindar reglur laga.“ Hins vegar þótti rétt að bæta honum miska vegna aðgerða, sem voru ákveðnar 350.000 krónur.
Aftur stefndi Anton ríkinu árið 2015. Tildrög þess máls vörðuðu upplýsingar sem lögreglu bárust um hugsanlega kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði að Síðumúla. Í kjölfarið var framkvæmd húsleit og lagt hald á kannabisplöntur og fleiri sakargögn. Meðal þess sem fannst voru skattframtöl merkt Antoni og gögn sem tengdust honum, sem og fingraför hans. Því fékk lögregla heimild til húsleitar að Sparhafi þar sem Anton var meðal leigjenda. Mikið magn kannabisefna fannst í húsinu, kannabisgræðlingar í ræktun og búnaður tengdur ræktun kannabisefna. Eins smelluláspokar sem innihéldu marijúana og grammavog. Í svefnherbergi Antons fundust tvö peningabúnt, samtals 442 þúsund krónur, myndavél og ýmis gögn, m.a. teikningar sem sýndu ætlaða uppsetningu ræktunar í öðru húsnæði. Á myndavélinni fundust myndbönd sem sýndu fjórar ræktanir.
Lögreglu þótti eins grunsamlegt að Anton og samleigjandi hans greiddu 600.000 krónur á mánuði í leigu en skráðar tekjur hans væru langt undir þeirri fjárhæð. Hins vegar var Anton sýknaður af ákæru í málinu.
Lögreglu hafi verið veittur aðgangur að tölvupósti og fjarskiptum Antons sem og bankaupplýsingum en Héraðsdómur mat það svo að það tímabil hafi verið óþarflega langt. Því fékk Anton 400.000 krónur í bætur.
Anton komst í fréttir á síðasta ári þegar hann festi kaup á einbýlishúsi á Arnarnesi sem kostaði 110 milljónir króna. Húsið var 288 fermetra einbýlishús í slæmu ástandi sem hann keypti af Rasmusi Rojkjaer, fyrrverandi forstjóra Alvotech á Íslandi. Í kjölfarið fékk Anton samþykki hjá bæjarráði Garðabæjar fyrir endurbyggingu og stækkun hússins.
Fyrir átti hann glæsilegt einbýlishús við Frjóakur í Garðabæ sem hann seldi á 360 milljónir króna. Um var að ræða 650 fermetra glæsihýsi sem innanhúsarkitekt sá um að hanna að innan.
Glæsibragur hefur einkennt lífsstíl Antons um nokkuð skeið en í DV í ársbyrjun 2011 var fjallað um veglegt áramótapartí sem var haldið í glæsilegu einbýlishúsi í úthverfi Reykjavíkur og var Anton sagður gestgjafinn.
„Lúxuspartí í úthverfunum.
Eitt stærsta partí áramótanna var haldið í glæsilegu einbýlishúsi í úthverfi Reykjavíkur og gestgjafinn var Anton Kristinn Þórarinsson. Fjöldi fólks mætti og gerði vel við sig í mat og drykk og afhenti gestgjafanum bikar með áletruninni : „Partípabbi ársins.“ Meðlimir nýrra samtaka, Semper Fi, mættu í partíið og keyptir voru flugeldar fyrir eina og hálfa milljón króna.“
Anton hefur ekki hlotið dóm frá árinu 2000 og virðist vera stórtækur í fasteignaviðskiptum í dag. Hann sótti í september í fyrra um að fá úthlutað lóð á Sauðarárkrók til byggingar á íbúðarhúsi. Eins sótti hann árið 2002 um leyfi til að innrétta veitingastað á 1. hæð fjölbýlishúss að Skúlagötu.
Árið 2007 var auglýst nauðungarsala á eign Antons að Kirkjubraut 2, Akranesi, en gerðarbeiðandi var Akraneskaupstaður.
Árið 2013 var auglýst nauðungarsala á eign hans að Frjóakri í Garðabæ, en gerðarbeiðandi var Sjóvá-Amennar tryggingar. Anton virðist þó hafa haldið húsinu og selt það sem áður segir á 360 milljónir til Magnúsar Ármanns, fjárfestis, og eiginkonu hans Margrétar Írisar Baldursdóttur.
Óljóst er hvaðan tekjustreymi Antons kemur upphaflega en glæsilegur lífsstíll hans hefur viðhaldið sögusögnum um árabil að hann sé tengdur undirheimum um árabil. Eins er óljóst hvaða áhrif gagnalekinn hefur á Anton, sem og aðra sem nafngreindir eru í skjölunum. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sagði við fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær að lekinn á gögnunum sé til skoðunar hjá embættinu.
Ekki náðist í Anton við vinnslu fréttarinnar.
Hér má sjá innlit Sindra Sindrasonar í glæsihöllina í Garðabæ