Ölgerðin að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur stöðvað sölu á og innkallað Malt & Appelsín drykki í hálfs lítra dósum.
Segir í tilkynningu heilbrigðiseftirlitsins vegna málsins að hugsanlega geti leynst glerbrot í drykkjardós. „Glerbrot í matvælum geta valdið skemmdum á tönnum og sárum í munnholi og meltingarvegi.“
Um er að ræða Malt og Appelsín umbúðir í hálf lítra dósum sem framleiddar voru 02.11.20. Best fyrir dagsetning er 02.08.21.
Segir í tilkynningu heilbrigðiseftirlitsins að viðskiptavinir sem hafi keypt umrædda vöru eigi ekki að neyta hennar, heldur skila henni frekar gegn endurgreiðslu eða skiptum á samskonar vöru.