Sindri Viborg er ósáttur við samskipti sín við Dominos-keðjuna en hann reyndi árangurslaust að kaupa pizzu hjá henni. Ástæðan er sú að Sindri notast eingöngu við reiðufé. Hann fór yfir málið í svohljóðandi Facebook-færslu:
„Pantaði pizzu á Dominos.
Símsvarinn mælti með því að panta á netinu og að borga með korti.
Ég á ekki kort og nota því hvorki netið til að panta, né borga.
Mæt á staðinn og rétti þeim peninginn. Þá er mér tjáð að þau taki ekki við peningnum. Ég gat því ekki keypt pizzuna þótt peningurinn fyrir henni lá á borðinu fyrir framan þau.
Lög um gjaldeyri segir eftirfarandi „Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði.“
Af einhverri ástæðu telur Dominos sig hafa rétt til að sleppa þessu lagaákvæði um útgáfu seðla og myntar.
Hvernig þeir telja sig geta verið með opna verslunina hjá sér og ekki framfylgt þessu er mér óskiljanlegt. Mér finnst einnig setningin „því miður“ eftir að búið er að útskýra hlutina fyrir þeim, ekki heldur málefnalegt eða eðlilegt með nokkru móti.“
Í stuttu viðtali við DV segist Sindri telja að þetta sé lögbrot en hann efast um að hann nenni að taka málið lengra. Hann bendir á að hvergi komi fram í tilkynningum frá Dominos að fyrirtækið neiti að taka við peningum, eingöngu að mælt sé með því að notast við rafræna greiðslumáta. „Ég ætla mér ekkert endilega með þetta lengra. Hreinlega nenni því ekki. En þetta er algjör lágkúra að koma svona fram. Það er einnig vert að nefna að Dominos talar um að vera með þetta á síðunni sinni, en þar er einnig bara mælt með að borga rafrænt. Hvergi finn ég það að þeir neiti peningum.“
Sindri segir enn fremur: „En það liggur beinast við að íslenskt fyrirtæki að standa í viðskiptum við Íslending, á Íslandi, geti ekki neitað íslenska gjaldeyrinum. Þetta er lögmyntin okkar, kort eru það ekki.“
DV sendi fyrirspurn á Dominos vegna málsins. Í fyrirspurninni var bent á að í kafla á heimasíðu Dominos um forvarnir vegna COVID-19 sé fólk hvatt til að nota app eða net til að greiða, en ekki kveðið á um að það sé skylda. Beðið er svara við fyrirspurninni.
DV hefur borist svar frá Dominos þar sem segir að tímabundið sé hætt að taka við reiðufé vegna smithættu. Segir að sölufulltrúar í símaveri eigi að taka fram að ekki sé hægt að greiða með reiðufé:
„Því miður höfum við tímabundið hætt að taka við reiðufé í verslunum okkar vegna smithættu. Við höfum reynt að setja þetta eins skýrt fram og hægt er á vefsíðu okkar, í appi og hjá símaveri með eftirfarandi hætti:
Á forsíðu dominos.is er mælt með að greiða pantanir fyrirfram og í síðasta skrefi pöntunarferilsins er þessi ábending sem segir frá þessum tímabundnu ráðstöfunum:
Í appinu okkar er stór rauð tilkynning á forsíðu sem segir það sama, að vegna smithættu sé ekki lengur hægt að taka við reiðufé.
Því miður var ekki hægt að nota svipaða lausn og á vefnum vegna plássleysis. Í símaverinu eiga allir sölufulltrúar að fylgja handriti en í því er skýrt tekið fram að ekki sé hægt að greiða með reiðufé.
Þessi einstaki viðskiptavinur hefur því miður annað hvort lent í því að sjá ekki tilkynninguna á forsíðu appsins eða að þjónustuverið hefur ekki náð að útskýra þetta nógu vel í símtalinu. Við erum að hafa samband við hann Sindra og bæta honum misskilninginn upp. Það þykir okkur miður.“