Samtökin Sea Shepard segjast hafa verið sniðgengin í umfjöllun RÚV og Morgunblaðsins þar sem sagt er frá hreinsun á flugeldaúrgangi sem átti sér stað þann 3. janúar.
„Þetta er annað árið í röð sem við stöndum fyrir slíkri hreinsun í samstarfi við félaga okkar frá SEEDS. Hins vegar voru aðeins SEEDS sjálfboðaliðar nefndir í fréttunum. Við teljum að ákvörðun um að sleppa að nafngreina eða viðurkenna Sea Shepherd hafi vísvitandi verið gert, þar sem fjölmiðlar fréttu af atburðinum í gegnum samfélagsmiðla okkar,“ segir í fréttatilkynningu sem samtökin hafa sent frá sér.
Samtökin segjast ekki standa fyrir slíkum hreinsunum til að fá hrós eða viðurkenningu frá samfélaginu en þeim þyki hart að þau séu sniðgengin þegar á annað borð sé verið að fjalla um slíkt. Telja þau að það hafi ekki verið mistök umræddra fjölmiðla að greina ekki frá þeirra þætti í hreinsuninni heldur sé þessi hunsun dæmi um fordóma sem samtökin verði fyrir. Í fréttatilkynningunni segir:
„Við erum þakklát og stolt af samstarfi okkar við SEEDS, þau eru með þeim duglegustu sjálfboðaliðum sem við þekkjum og með ótrúlegan liðsanda. Atburðurinn var þó Sea Shepherd framtak (bæði árið 2021 og árið 2020) og sameiginlegt átak. SEEDS komu með sendibílinn sinn, við komum með endurvinnslutunnur okkar og búnað, við sameinuðum sjálfboðaliða okkar og gerðum þetta saman.
Sjálfboðaliðar Sea Shepherd á Íslandi hafa orðið fyrir ýmsum örsóknum og fordómum frá því að Íslandsdeild samtakanna var stofnuð, en okkur finnst þessi falsfréttaflutningur hinn virðingarlausasti: Er talið að sjálfboðaliðar Sea Shepherd séu bara útlendingar sem hvorki lesa né horfa á íslenskar fréttir þannig að þetta kæmist aldrei upp? Eða er ásættanlegt að flytja falsfréttir um vinnu okkar?
Augljóslega framkvæmum við ekki þessar hreinsanir vegna þess að við séum að leitast eftir hrósi eða viðurkenningu frá samfélaginu. Við gerum þetta einfaldlega vegna þess að það er nauðsynleg vinna. Okkur hefði verið sama ef engin grein hefði komið frá fjölmiðlum um störf okkar, en að taka upp söguna og velja síðan að ljúga í umfjöllun um hana er óásættanlegt.“