fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Fréttir

Halla Vilhjálms lýsir ástandinu í London – „Það eru raðir af sjúkrabílum fyrir utan spítalana“ 

Tobba Marinósdóttir
Mánudaginn 4. janúar 2021 17:45

Mynd: Halla Koppel hefur verið að gera það gott í breska bankageiranum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halla Vilhjálmsdóttir Koppel, leikkona og starfsmaður fjárfestingabankans Goldman Sachs, er búsett í London ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Staðan í Bretlandi er ákaflega slæm en í gær greindust 54.990 einstaklingar með Covid-19. Yfir 75.000 manns hafa látist þar í landi úr Covid-19 og er sú dánartíðni sú hæsta í Evrópu auk þess sem engin landamæraskimun er í Bretlandi.

„Ástandið er rosalegt,“ segir Halla sem er í sjálfskipaðri sóttkví ásamt þremur börnum sínum og eiginmanni. „Nicola Sturgeon, æðsti ráðherra Skotlands, er búin að lýsa yfir útgöngubanni í Skotlandi og Boris verður með tilkynningu kl 20 í kvöld hvað gerist með England,“ segir Halla en forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnsson, boðaði í gær hertar sóttvarnaraðgerðir sem skýrast í kvöld.

Sjá einnig: Útgöngubann í Bretlandi

Tilraunakennd bólusetning

Í dag hófu Bretar að bólusetja landsmenn með svokallaðri Oxford-sprautu en bólusetningar hófust með bóluefni frá Pfizer 27þ desember. „Planið hér er að bólusetja sem flesta með fyrsta skammtinum sem veitir minni vörn heldur en tveir skammtar, áður en ráðist er í að gefa fólki seinni skammtinn af bóluefninu,“ segir Halla. Umdeilt er hversu mikla vörn fyrsti skammturinn gefur en með því að tryggja seinni skammt innan þriggja vikna getur náðst 95-96% virkni.

Bretar eru nokkuð frumlegir í nálgun sinni og er stefna þeirra að bólusetja sem flesta með einni sprautu áður en ráðist er í að gefa fólki seinni sprautuna en yfirvöld gefa sér 12 vikur til þess að sprauta fólk aftur. Samkvæmt upplýsingum DV fer virkni fyrstu sprautunnar að dala eftir þrjár vikur en hversu mikið er óvíst. Læknir sem DV ræddi við taldi líklegast að um 55% virkni fáist með einni sprautu sem svo getur minnkað eftir fyrstu þrjár vikurnar.

Nýja afbrigðið

Halla segir fólk þó almennt vera jákvæðara en áður þó þetta séu krefjandi tímar. „Fólk heldur í vonina sem kemur með bólusetningunni. Ég held persónulega að fyrri hluti ársins verði slæmur en maður verður að halda þetta út. Ég sé þetta ekki batna alveg strax. Það er forgangsröðun á sprautunum og þetta tekur tíma. Þetta nýja afbrigði er svakalegt. Þó það sé tölfræðilega ekki fleiri að látast þá er það svo slæmt hvað fólk veikist hratt og mikið á stuttum tíma að álagið á heilbrigðiskerfið er of mikið. Þó að sjúkdómurinn sé ekki verri þá er það magn veikra sem heilbrigðiskerfið ber ekki,“ segir Halla.

Skilti eftir áhættu

„Hér er talað um Tier-system sem byggir á sóttvarnahólfum sem eru númerið eftir áhættustigi og fjölda smita. Við erum í Tier 4 sem er hæsta viðbragðsstig og kallar á að fólk sé heima. Næsta stig er þá útgöngubann,“ segir Halla sem segir aðalmuninn vera fólginn í að þá sé öllum skólum lokað. Nú sé allt lokað nema matvöruverslanir og skólar auk nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu og almenningssamgöngur.

Halla segir það ekki skemmtilegt að sjá skilti við barnaskólann sem hið opinbera hefur komið upp og á stendur: „Sérstaklega mörg smit í þessu hverfi.“ Engu að síður sé fólk á gangi víða og reglur ekki virtar.

„Ég horfi út um gluggann og er að horfa á fimm manneskjur mætast á lítilli brú og hvert er þetta fólk að fara? Þau er ekki að fara til vinnu í fjármálahverfinu, þar er allt lokað. Þetta er ekki sami draugabær og við sáum til að byrja með þegar fyrsta útgöngubannið var sett. “ Sektað er fyrir tilgangslausar ferðir og brot á sóttvarnarreglum en Halla segir fólk fara milli hverfa og smithólfa þó það sé bannað.

Augljós smitleið

Halla segir ástandið vera mjög erfitt. Hún hefur verið heima með börnin þrjú sem eru frá tíu mánaða upp í fimm ára. „Við erum bara heima. Þú mátt ekki hitta neinn. Það er þannig séð hægt að fara á róló en London er ekki barnaborg. Það er 20 mín gangur á næsta róló og kannski eru aðrir þar, staðurinn stappaður af úttauguðum mæðrum þannig að það er ekkert sérstaklega sniðugt,“ segir Halla en hún segir borgarbúa ekki duglega við að virða sóttvarnarreglur.

„Það er svo margt fólk og fá svæði. Matvöruverslanir eru opnar en ég fæ sendan mat. Þegar maður hefur þurft að fara í matvöruverslun sér maður að starfsfólk og almenningur er ekki að virða 2 metra regluna.“

Hún segir almenningssamgöngutæki vera troðin af fólki á háannatímum og þá leiði það af sér að fólk virði sóttvarnar minna í framhaldinu eftir að hafa staðið í kös í lestinni. „Mér sýnist þetta vera augljósasta smitleiðin. Þetta er svo stórt land, það næst ekki sama samstaða og heima á Íslandi. Svo eru skilaboðin eru svo misvísandi. Það eru svo margar reglur í gangi og það næst ekki samstaða.“

Skólar í áhættuhverfum

„Skólar opna í dag. Formaður Verkamannaflokksins vill fresta opnun skóla en Boris vill láta opna skólana. Ég fékk reyndar tölvupóst í morgun um að skóli barnanna minna verði ekki opnaður fyrr en 18. janúar. Skólar í áhættuhverfum verða áfram lokaðir. En börnin mín eru svo ung að þau eru í leikskóla og forskóla en þeir opna í dag. Bara 1 bekkur, forskóli og leikskólar eru opnir. Nema fyrir börn fólks í framvarðarsveitum eða börn sem eru í áhættuhóp – líklega af félagslegum ástæðum, þá eiga þau að mæta,“ segir Halla en almennt er skólaskylda frá fimm ára aldri í Bretlandi.

Hún segir skólann hafa staðið sig vel þegar hann má hafa opið. „Skólinn stendur sig vel, virðir reglur og honum hefur ekki verið lokað vegna smits. Það hefur gengið vel.“ Þriggja ára sonur hennar fer ekki með tösku eða aukaföt í skólann, skólanum er skipt upp í sóttvarnahólf, foreldrar fara ekki inn í skólann og allt nesti kemur frá skólanum sjálfum.

Samsæriskenningar

„Það vantar samstöðuna sem er heima. Íslendingar eru svo góðir í að taka höndum saman. Það er til dæmis ekki hægt að vera með app hér – þá koma strax fram samsæriskenningar  í kjölfar þokukenndra upplýsinga.“

Aðspurð hvort hún ætli sér að koma heim á meðan ástandið gengur yfir svarar hún: „Við erum ekki beint bundin við Bretlandi, við eltum bara tækifærin og það er draumur mannsins mín að flytja heim til Íslands einn daginn. Ég var næstum farin í flug heim um helgina.  Ef það er „total lockdown“ og börnin þurfa ekki að fara í skóla í einhvern tíma er ég til í að fara heim til Íslands,“ segir Halla sem þó er jákvæð og segist ekki vera að bugast.

„Ég baka bara til að halda geðheilsunni. Ég get heldur ekki ítrekað hvað það er mikilvægt að makinn þinn sé líka góður vinur. Ég get ímyndað mér að mörg sambönd virki fínt ef fólk er lítið heima. En nú reynir á. Svo verður maður að vera meðvitaður um að hlúa að andlegu hliðinni. Borða hollt, taka öndunaræfingar og fara í jóga,“ segir Halla og hún segist hugsa með hlýju heim til Íslands í samstöðuna og víðáttuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Morðin í Neskaupstað: Íbúar höfðu lengi haft þungar áhyggjur af Alfreð Erling

Morðin í Neskaupstað: Íbúar höfðu lengi haft þungar áhyggjur af Alfreð Erling
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri

Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri