fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
Fréttir

Íslendingarnir sem kvöddu á árinu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 3. janúar 2021 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margt svipmikið samferðafólk kvaddi þessa jarðvist á árinu sem er að líða. Sorginni blandast góðar minningar og margir tjáðu sig um eftirminnileg kynni og samleið.

 

 

Rósa Ingólfsdóttir. Mynd: Aðsend

RÓSA INGÓLFSDÓTTIR

Rósa Ingólfsdóttir lést þann 14. janúar, 72 ára að aldri. Rósa fangaði hug og hjörtu þjóðarinnar sem dagskrárþula Ríkissjónvarpsins á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en hún sinnti fjölmörgum öðrum störfum sem vöktu athygli. Hún var afburðaleikkona, merkur lagasmiður, myndlistarkona og auglýsingateiknari. DV ræddi við dóttur Rósu, Klöru Egilson, er greint var frá andláti Rósu. Þær voru mjög nánar en á dánarbeði Rósu áttu þær mægður eftirfarandi samtal: „Ég sagði við mömmu: Veistu það mamma, að sterkasta aflið í heiminum er ástin. Hún svaraði: Það er alveg rétt hjá þér. Ástin er öflugust alls, við sem erum elskuð, við deyjum aldrei í raun.“

GÍSLI RÚNAR JÓNSSON

Hinn þjóðþekkti leikari, grínisti, handritshöfundur og þýðandi, Gísli Rúnar Jónsson, lést seint í júlí, 67 ára að aldri. Gísli Rúnar vakti líklega fyrst athygli sem annar leikaranna í grínþáttunum Kaffibrúsakarlarnir frá fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar. Einnig grínaðist hann með Halla og Ladda á metsöluplötu þeirra „Látum sem ekkert C“. Gísli var þekktur leikari og lék í fjölmörgum kvikmyndum, meðal annars hinni sígildu gamanmynd „Stella í orlofi“, þar sem hann gerði persónu Antons ódauðleg skil. Einnig var hann atkvæðamikill leikhúsmaður en síðast en ekki síst var hann öflugur þýðandi, einkum á leikverkum. Sem handritshöfundur, leikari og leikstjóri kom Gísli að gerð margra Áramótaskaupa auk gamanþáttanna „Fastir liðir eins og venjulega“ og „Heilsubælið í Gervahverfi“.

ÞRÖSTUR INGIMARSSON

Þröstur Ingimarsson andaðist á Sjúkrahúsinu í Keflavík, fimmtudaginn 19. nóvember, 57 ára gamall, en banamein hans var krabbamein. Þröstur er fæddur og uppalinn í Reykjavík en bjó síðustu æviárin í Höfnum ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Elínborgu Steinunnardóttur. Þröstur lætur eftir sig eina dóttur, Ingibjörgu Sunnu Þrastardóttur, og stjúpson, Agnar Dofra Stefánsson. Þá lætur Þröstur eftir sig tvö barnabörn. Þröstur starfaði sem gæslumaður á réttar- og öryggisgeðdeild. Hann var margfaldur Íslandsmeistari í pílukasti og landsliðsmaður í bridge til margra ára.

KARL BERNDSEN

Karl Berndsen, hárgreiðslumeistari og sjónvarpsstjarna, lést seint í janúar, 55 ára að aldri. Hann hafði barist við krabbamein frá árinu 2013. Karl var landsþekktur fyrir að aðstoða fólk við að breyta útliti sínu til hins betra. Naut hann mikilla vinsælda fyrir framgöngu sína í fjölmiðlum og tískuvitund sína.

RÓBERT TRAUSTI ÁRNASON

Róbert Trausti Árnason, fyrrverandi sendiherra, lést á líknardeild Landspítalans þann 23. október síðastliðinn, 69 ára að aldri. Róbert Trausti fæddist í Reykjavík þann 24. apríl 1951, sonur Önnu Áslaugar Guðmundsdóttur og Árna Guðmundssonar. Hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1973 og BA-prófi frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1979. Hann lauk MA-prófi í stjórnmálafræði frá Queen´s University í Kingston, Kanada, árið 1981. Róbert Trausti starfaði sem upplýsingafulltrúi hjá Atlantshafsbandalaginu í Brussel í Belgíu á árunum 1981 til 1986. Hann hóf síðan störf í utanríkisráðuneytinu og var skipaður sendiherra árið 1990. Árið 1996 var Róbert Trausti skipaður sendiherra Íslands í Danmörku og gegndi því starfi til ársins 1999 þegar hann tók við embætti forsetaritara. Róbert Trausti lét af því starfi í mars árið 2000 þegar hann varð forstjóri Keflavíkurverktaka. Róbert Trausti var sæmdur stórkrossi Dannebrogsorðunnar árið 1996.

RAGNAR BJARNASON

Ragnar Bjarnason, einn ástsælasti dægurlagasöngvari þjóðarinnar, lést 26. febrúar. Hann var 85 ára. Óhætt er að segja að Ragnar hafi verið einn þekktasti og vinsælasti tónlistarmaður landsins. Hann var sæmdur fálkaorðunni árið 2005 og hlaut heiðurslaun listamanna árið 2019.

EIRÍKUR BRYNJÓLFSSON

Eiríkur Brynjólfsson, rithöfundur, þýðandi og kennari, lést seint í ágústmánuði, 69 ára að aldri, eftir stutta en snarpa baráttu við illvígan sjúkdóm. Eiríkur á fjölbreyttan og merkan feril að baki sem kennari, kennslustjóri, rithöfundur og þýðandi með meiru. Hann sendi frá sér smásagnasöfn og ljóðabækur auk þýðinga á erlendum skáldsögum. Skáldskapur Eiríks ber meðal annars vitni um orðheppni og djúpan málskilning. Hann var foringi Hins íslenska glæpafélags frá árinu 2007. Það er félag rithöfunda og áhugamanna um glæpasögur. Félagið hefur starfað ötullega að vexti og viðgangi glæpasagnaritunar, meðal annars með verðlaunum og upplestrum.

Jón Egill Sveinsson. Aðsend mynd.

JÓN EGILL SVEINSSON

Jón Egill Sveinsson lést á afmælisdaginn sinn, þann 27. ágúst síðastliðinn, 97 ára gamall. Það þykir hár aldur en langlífi er í ætt Jóns, móðir hans, Sigríður Fanney Jónsdóttir, varð 104 ára gömul. Jón Egill fæddist að Egilsstöðum þann 27. ágúst árið 1923. Hann bjó þar mestan hluta ævi sinnar en námsárum varði hann í Winnipeg í Kanada og Bandaríkjunum. Einnig bjó hann um skeið að námi loknu í Reykjavík. Jón Egill lærði flug í Kanada og flugvirkjun í Bandaríkjunum. Að námi loknu starfaði hann um skeið hjá Flugfélagi Íslands. Árið 1948 var lykilár í lífi hans því þá ákvað hann að flytja austur á æskustöðvarnar og hefja búskap. Jafnframt giftist hann Mögnu Jóhönnu Gunnarsdóttur, frá Beinárgerði á Völlum. Hún lést árið 2010. Jón Egill og Magna eignuðust sex syni.

JÓHANN HJÁLMARSSON

Jóhann Hjálmarsson, skáld og bókmenntagagnrýnandi, lést seint í nóvember, 81 árs að aldri. Hann var fæddur 2. júlí 1939 í Reykjavík. Hann starfaði lengi sem póstfulltrúi og útibússtjóri hjá Póst- og símamálastofnun. Jóhann var árum saman ötull og vandaður bókmenntagagnrýnandi hjá Morgunblaðinu, einn sá þekktasti í þeirri stétt. Jóhann var viðurkennt ljóðskáld sem sendi frá sér fjölda ljóðabóka. Einfaldur og opinn ritstíll þar sem blæbrigði hversdagsleikans nutu sín voru meðal einkenna á skáldskap hans. Ljóðabók Jóhanns, Hljóðleikar, var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2003. Jóhann var einnig afkastamikill ljóðaþýðandi.

SÖLVI JÓNSSON

Sölvi Jónsson lést fyrir aldur fram í febrúar, 44 ára að aldri. Hann var sérstæður tónlistarmaður, skáld og hugsjónamaður. Síðustu árin þjáðist Sölvi mjög af verkjum í kjölfar hnjáaðgerðar. Hann leitaði sér lækninga af ákafa og en svo fór að hann þoldi ekki lengur ástandið og sá aðeins eina leið út. Veikindi hans og vonlaus leit að bata komu nokkuð við sögu í minningargreinum um Sölva.

JÓN VALUR JENSSON

Þekktur þjóðfélagsrýnir og baráttumaður, Jón Valur Jensson, lést aðfaranótt sjötta janúar, sjötugur að aldri. Jón Valur var lærður guðfræðingur, starfaði um tíma sem prófarkalesari á Morgunblaðinu, var ötull ættfræðigrúskari, ljóðskáld og landsþekktur fyrir þátttöku sína í þjóðmálaumræðunni. Jón Valur var talsmaður kristinna og íhaldssamra gilda, andstæðingur Evrópusambandsins og með sterka þjóðernistaug. Hann tjáði sig í rituðu máli, í símatímum útvarpsstöðvarinnar Útvarp Saga og á mótmælafundum á Austurvelli. Skrif sín birti Jón Valur gjarnan á Moggablogginu.

 

Alma Geirdal. Mynd: Anton Brink

ALMA GEIRDAL

Alma Geirdal, ljósmyndari og uppistandari, lést þann 19. september eftir langa baráttu við krabbamein. Alma greindist með brjóstakrabbamein 38 ára gömul, öðlaðist bata um tíma, en meinið tók sig síðan upp að nýju.

JÓHANN TRAUSTASON

Jóhann Traustason, oftast kallaður Jói, lést þriðjudagsmorguninn 31. mars en hann var fæddur árið 1958. Jóhann var frá Ísafirði en hann var þekktastur fyrir baráttu sína við Bakkus þar sem hann hafði betur og átti edrúlíf á síðustu æviárum. Jói starfaði mikið fyrir Samhjálp og sinnti meðal annars húsvarðarstörfum og þrifum.

JÓNÍNA BENEDIKTSDÓTTIR

Jónína Benediktsdóttir, líkamsræktarfrömuður og athafnakona lést þann 16. desember. Hún var fædd þann 26. mars árið 1957. Varð hún bráðkvödd á heimili sínu í Hveragerði. Jónína nam íþróttafræði í Kanada og þegar heim var komið stofnaði hún eina fyrstu líkamsræktarstöðina á Íslandi. Jónína var áhugasöm um að kynna landsmönnum mikilvægi líkamsræktar og stóð meðal annars fyrir morgunleikfimi á Rás 1. Síðustu ár hefur hún staðið fyrir lífsbætandi heilsumeðferðum í Póllandi og nú síðast á Hótel Örk í Hveragerði. Jónína var þekkt fyrir brautryðjendastarf á sviði heilsuræktar og flutti fyrirlestra um heilsutengd málefni víða um heim.

GÍSLI GUNNARSSON

Gísli Gunnarsson, doktor í sagnfræði og prófessor við Háskóla Íslands, lést í byrjun apríl, 82 ára að aldri. Auk fræðistarfa lét Gísli mikið að sér kveða í pólitísku starfi og var virkur í Alþýðubandalaginu og Samfylkingunni. Gísli var fjölfróður og skemmtilegur samræðufélagi og síðustu árin var hann ötull á samfélagsmiðlum.

ALFREÐ ÞORSTEINSSON

Alfreð Þorsteinsson, sem lengi var borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og stjórnarformaður Orkuveitunnar, lést 28. maí, 76 ára að aldri. Alfreð var lengi formaður íþróttafélagsins Fram og starfaði mjög ötullega fyrir félagið. Dóttir Alfreðs er Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

 

Þormar Vignir Guðbergsson. Mynd: Guðmundur Guðbergsson

ÞORMAR VIGNIR GUNNARSSON

Þormar Vignir Gunnarsson, ljósmyndari og trésmiður, varð bráðkvaddur að heimili sínu 12. nóvember síðastliðinn. Þormar var fæddur þann 30. september árið 1973 og kvaddi því í blóma lífsins. Þormar var vinnusamur maður, hafði trésmíði að lifibrauði en starfaði líka ötullega að ljósmyndun, sem var ástríða hans. Hann vann til dæmis mikið fyrir DV og Morgunblaðið.

KJARTAN LÁRUS PÁLSSON

Kjartan Lárus Pálsson, fararstjóri, blaðamaður og kylfingur, lést þann 3. apríl, áttræður að aldri. Kjartan var atkvæðamikill kylfingur og var um tíma liðsstjóri karlalandsliðsins í golfi.

GISSUR SIGURÐSSON

Gissur Sigurðsson, fréttamaður til áratuga, lést þann 5. apríl en hann var fæddur árið 1947. Gissur starfaði á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar í aldarfjórðung og þar áður á Ríkisútvarpinu. Hann þótti einstaklega fróður og líflegur fréttamaður.

SVEINN AÐALSTEINSSON

Sveinn Aðalsteinsson lést 9. nóvember 74 ára að aldri. Sveinn varð snemma gallharður sósíalisti sem fyldist vel með heimsmálunum og varð virkur í Alþýðubandalaginu. Árið 1979 var Sveinn aðstoðarmaður Svavars Gestssonar fjármálaráðherra og vann í fjármálaráðuneytinu til 1980. Árið 1987 var Sveinn ráðinn sem forstöðumaður innlendra og erlendra viðskipta hjá Alþýðubankanum og lyfti þar grettistaki á undraskömmum tíma. Sveinn tók einkaflugmannspróf, starfaði um tíma í fiskútflutningi, keyrði strætó, stofnaði skartripaverslun og ól upp 4 börn með eiginkonu sinni Sigrúnu Hermannsdóttur. Sveinn var gallharður náttúruverndarsinni og barðist gegn virkjunum allt sitt líf.

SVERRIR ÞÓR EINARSSON

Sverrir Þór Einarsson, sem þekktur var undir nafninu Sverrir tattoo, lést seint í júlí, 58 ára að aldri. Sverrir var afar þekktur húðflúrari og litríkur persónuleiki. Hann rak húðflúrstofuna Skinnlist Tattoo ásamt eiginkonu sinni.

PÉTUR EINARSSON

Pétur Einarsson, fyrrverandi flugmálastjóri, lést 20. maí, 72 ára að aldri. Banamein hans var ólæknandi krabbamein, hvítblæði. Pétur var flugmálastjóri frá árunum 1983 til 1992. Hann var með réttindi sem héraðsdómslögmaður, atvinnuflugmaður og húsasmíðameistari, og minni skipstjórnarréttindi. Pétur var lífskúnstner og djúphugull maður. Eftir hann liggja nokkrar bækur. Pétur hélt úti síðunni Dagbók krabbameinssjúklings á Facebook, þar sem hann birti hugleiðingar sínar og deildi lífsreynslu sinni.

 

Jóhanna Erlingsdóttir. Mynd: Facebook

JÓHANNA ERLINGSDÓTTIR

Jóhanna Erlingsdóttir lést 14. maí eftir 11 ára baráttu við krabbamein. Jóhanna var úr Reykhólasveit en bjó seinni árin í Kópavogi. Aðalstarf Jóhönnu var rekstur Dillonshúss í Árbæjarsafni en þar fékk sköpunargleði hennar að njóta sín í matargerðinni. Auk þess málaði Jóhanna myndir og spilaði á harmonikku. Jóhanna hafði sterkar skoðanir á þjóðmálum og stjórnmálum og réttlætiskenndin var leiðarljós hennar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Sigurjón skammar Moggann – „Framsetning Morgunblaðsins í þessu máli er engin tilviljun“

Sigurjón skammar Moggann – „Framsetning Morgunblaðsins í þessu máli er engin tilviljun“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum
Rútuslys á Suðurlandi
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Gróa lætur Íslandspóst heyra það – „Þetta finnst mér algjörlega óviðunandi þjónusta“ 

Gróa lætur Íslandspóst heyra það – „Þetta finnst mér algjörlega óviðunandi þjónusta“ 
Fréttir
Í gær

Stórhættulegur maður með andfélagslega persónuleikaröskun grunaður um fjölda brota – Sýnir enga iðrun og finnur ekki fyrir sektarkennd

Stórhættulegur maður með andfélagslega persónuleikaröskun grunaður um fjölda brota – Sýnir enga iðrun og finnur ekki fyrir sektarkennd