Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að stjórnin hafi farið fram á það við Valdimar Ármann, fyrrum forstjóra GAMMA, og Ingva Hrafn Óskarsson, sem var sjóðsstjóri GAMMA, að þeir endurgreiði GAMMA um 12 milljónir vegna kaupauka sem þeir fengu greidda 2018 og 2019.
Kaupaukarnir voru tilkomnir vegna góðrar afkomu GAMMA 2017 og 2018. Í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins var greiðslu um 40% kaupaukans frestað í þrjú ár og var skuldbinding GAMMA vegna þessa um 33 milljónir króna í lok síðasta árs.
Nú hefur stjórn GAMMA tekið ákvörðun um að greiða þessa upphæð ekki. Segist Markaðurinn hafa heimildir fyrir að það sé mat stjórnarinnar að ekki sé rétt að standa við þessar greiðslur í ljósi þess að afkoma félagsins á síðustu misserum hefur reynst lakari en fyrrverandi stjórnendur GAMMA gerðu ráð fyrir.
Á síðustu 18 mánuðum hefur GAMMA tapað um 500 milljónum króna.
Ákvörðun stjórnar GAMMA um að krefjast Valdimar og Ingva Hrafn um endurgreiðslu er tilkomin vegna reksturs fagfjárfestingasjóðsins Novus sem var í stýringu hjá GAMMA og var eigandi Upphafs fasteignafélags. Sjóðfélagar töpuðu háum fjárhæðum þegar skýrt var frá því fyrir um ári síðan að eignir Upphafs hefðu verið stórlega ofmetnar og var virði félagsins lækkað úr 5,2 milljörðum í 40 milljónir.