fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Fréttir

Ásakanir um einelti og andlegt ofbeldi í Krýsuvík – „Manni leið eins og skít og hann fór létt með að brjóta mig niður“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 26. september 2020 14:12

Hólmfríður Karlsdóttir. Mynd: ÁBS

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 9. ágúst síðastliðin var Hólmfríði Karlsdóttur sagt upp sem matreiðslumanni hjá Meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Hún hafði ekki unnið sér inn þriggja mánaða uppsagnarfrest. Engu að síður var henni boðið að fá tæplega fjögurra mánaða uppsagnarfrest greiddan án vinnuframlags og hætta störfum strax. Er hún á launum frá meðferðarheimilinu til loka nóvembermánaðar samkvæmt skriflegu og undirrituðu uppsagnarbréfi.

Hólmfríður telur að þessi liðlegheit hennar fyrri vinnuveitenda stafi af því að starfslok hennar hafi ekki átt sér eðlilegan aðdraganda. Að sögn hennar var uppgefin ástæða fyrir uppsögninni sú að „hún ylli of miklum usla í húsinu“. Frá hennar sjónarhóli var uppsögnin lokapunkturinn í margra mánaða einelti og andlegu ofbeldi sem hún segist hafa þurft að þola á staðnum, af hálfu dagskrárstjórans Jóns Kristjáns Jacobsens, sem kallar sig Nonna Lobo.

Örfáum dögum fyrir uppsögnina fóru allir vistmenn auk starfsmanna og skrifstofufólks frá aðalskrifstofu meðferðarheimilisins í Hafnarfirði í tveggja nátta ferð í Þórsmörk. Miðað við vaktafyrirkomulag hefði það átt að falla í hlut Hólmfríðar að sjá um eldamennsku og annað tilheyrandi í ferðinni en framkvæmdastjóri meðferðarheimilisins, Þórdís Jóhannsdóttir Wathne, lagði til við Hólmfríði rétt fyrir ferðina að æskilegra væri að hún færi ekki með og önnur starfskona í eldhúsi sæi um þessi verkefni, af þeim ástæðum að Hólmfríður væri slæm í mjöðm. Hólmfríður treysti sér fullkomlega í ferðina enda komu meiðslin ekki í veg fyrir að hún mætti alltaf í vinnu og tæki þátt í undirbúningi fyrir ferðina. Hún mótmælti þó ekki þessari beiðni Þórdísar enda virtist henni þetta þegar vera ákveðið.

„Þarna var ég sniðgengin. Þetta var gert fyrir vistmenn en allir tóku þátt og allskonar fólki var boðið auk starfsmannanna. Mér fannst þetta mjög rangt,“ segir Hólmfríður við DV.

Hún var ekki að bera þessar raunir sínar á torg en þegar vistmenn spurðu hana hvort hún kæmi örugglega ekki með svaraði hún hreinskilnislega: „Nei, mér stendur það ekki til boða.“ – Hólmfríði lynti alltaf afskaplega vel við vistmennina í Krýsuvík og hún var þeim hjartfólgin. „Langar þig að koma með?“ spurðu ungmenni meðal vistmanna og Hólmfríður svaraði hreinskilnislega að auðvitað langaði hana til þess. Það voru nokkur sem tóku ekki í mál að hún kæmi ekki með en Hólmfríði er ekki kunnugt um með hvaða hætti vistmennirnir ræddu þetta við yfirmenn. Hólmfríður telur þó að vistmenn hafi farið fram á að hún kæmi með og sá ágreiningur gæti hafa haft áhrif á uppsögn hennar, með öðrum orðum það hafi verið þessi „usli“ sem nefndur var til sögunnar.

Ásakanir um margra mánaða daglegt einelti

Þegar Hólmfríði og öðrum starfsmanni var sagt upp þann 9. ágúst síðastliðinn, höfðu bæði, að þeirra mati, mátt þola daglegt einelti og andlegt ofbeldi af hendi dagskrárstjóra meðferðarinnar í Krýsuvík, Jóns Kristjáns Jacobsen, Nonna Lobo. Útskúfunin frá ferðinni, sem var um 5. ágúst, og brottreksturinn nokkrum dögum síðar, voru frá sjónarhóli Hólmfríðar endapunkturinn í löngu ferli af einelti og andlegu ofbeldi.

Hólmfríður lýsir meintu einelti Jóns sem stöðugum aðfinnslum og afskiptasemi af hlutum sem honum komu ekki við. Hann hafi hegðað sér eins og hann væri einráður á staðnum þegar hann í rauninni var ekki hennar yfirmaður heldur dagskrárstjóri meðferðar. Jón hafi ekki hikað við að lítillækka hana fyrir framan aðra, það hafi gerst hvað eftir annað, en hann hafi oft gerst sekur um að hrauna yfir fólk í allra viðurvist.

„Ég þekki einelti úr æsku og ég átta mig fulkomlega á því hvað einelti er. Maður er brotinn niður með stöðugri neikvæðni og lítillækkun og maður fer að efast um sjálfan sig. Ég er býsna hörð af mér og hef unnið með alls konar fólki í gegnum tíðina án þess að blikna en Jóni tókst að brjóta mig niður og ég grét tvisvar undan honum.“

„Þetta hefur meðferðarlegt gildi,“ segir Hólmfríður að sé algengt viðkvæði hjá Jóni og í krafti þess skipti hann sér af stóru sem smáu, líka því sem hún áleit vera algjörlega utan verkssviðs hans. Að stjórnsemi hans einkennist af eins konar áráttu fyrir ofurnákvæmni og aga.

„Eitt dæmi um þetta er að hann segir að maturinn verði alltaf að vera á slaginu 12. Einu sinni varð mér á að segja „gjörið svo vel“ fjórum mínútum fyrir 12 og þá drullaði yfir mig fyrir framan vistmennina.“

Almennt hafi áreitni Jóns falist í stöðugum aðfinnslum og afskiptasemi þó að ákveðið hefði verið á fundi með framkvæmdastjóra að hann ætti ekki að skipta sér af eldhúsinu án leyfis starfsmanna þar. Það hefði hins vegar ekki breytt neinu og áreitið haldið áfram af engu minni krafti.

Einn meintur ósiður Jóns hafi verið hvernig hann brást við því þegar Hólmfríður spurði hvernig fólki líkaði maturinn. „Þegar ég spurði hvernig þeim hefði líkað maturinn svöruðu vistmennirnir að þeim hefði líkað hann vel en Jón svaraði stundum: „Oj, viðbjóður, þetta er ógeðslegt.“ – Segir Hólmfríður að henni hafi þótt þetta afar lítilsvirðandi framkoma, að rakka venjulegan heimilsmat niður fyrir framan vistmenn sem margir hafi áður verið á götunni og illa nærðir.

„Hvað er þessi tuska að gera hérna?“ – „Af hverju ertu ekki búin að tína þetta upp?“ – „Af hverju ertu að bjóða upp á svona mikla mjólk með kaffinu?“ – Dagarnir voru uppfullir af ótal svona athugasemdum og Hólmfríður segist hafa verið undir stöðugu eftirliti. Þessa afskiptasemi hafi síðan verið allt frá pirringslegum athugasemdum upp í reiðiköst og eins og áður hefur komið fram segir Hólmfríður að Jón hafi ekki hikað við að tala niður til hennar í augsýn annarra, meðal annars vistmanna og annarra starfsmanna.

Sýni vistmönnum líka óboðlega framkomu

Sem fyrr segir er meint einelti Jóns líka sagt hafa beinst gegn öðrum starfsmanni. Umræddur maður staðfesti í samtali við DV að hann hefði þolað einelti í Krýsuvík en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið að svo stöddu né vera nafngreindur. Segist hann vilja stíga fram síðar. Jón er sagður hafa sífellt fundið að verkum hans og skammað hann fyrir framan aðra út af einhverju sem annars vegar var ekki ámælisvert og hins vegar komi Jóni ekki við.

Enn eitt dæmið um afskiptasemi Jóns segir Hólmfríður að hafi verið þegar hann hélt að það væri eitthvað rómantískt á milli þessa manns og Hólmfríðar, vegna þess að þau voru farin að tala mikið saman, meðal annars um áreitið frá honum. Það hafi hins vegar verið algjör firra, þau séu vinir, en ekkert meira hafi verið á milli þeirra. Jón greip hins vegar þarna til kunnuglegs frasa og sagði að slíkt hefði „meðferðarlegt gildi.“

Hólmfríður segir að Jón hafi líka sýnt vistmönnum lítilsvirðandi framkomu og til dæmis hundskammað þá í viðurvist annarra fyrir smámuni eins og að þrífa ekki nógu vel eftir sig eftir matinn. Fyrrverandi vistmenn sem DV hefur rætt við taka undir þetta. Einn segir að Jón sé um margt ágætur ráðgjafi en skapofsi hans sé honum fjötur um fót í meðferðarstarfi. Hann hafi átt til að öskra á fólk algjörlega upp úr þurru og af engu boðlegu tilefni. Þá vitna vistmenn um að Hólmfríði hafi verið sýnd ömurleg framkoma og það hafi verið sértaklega lúalegt að halda henni frá ferðinni í Þórsmörk. Viðmælendur DV segja líka að Hólmfríður hafi verið yndisleg við vistmennina og það hafi oft verið betra að leita til hennar en inn á skrifstofuna með vandamálin. Það hafi verið afskaplega gott að spjalla við hana og slappa af með henni.

„Hann er einræðisherra“

„Hann er einræðisherra, það er ekkert launungarmál,“ segir Hólmfríður og bendir á að þannig hafi líka athafnakonan Jónína Ben lýst honum. Jónína Ben fór í vel heppnaða meðferð í Krýsuvík fyrr á árinu og lýkur lofsorði á staðinn, talar raunar líka vel um Jón, en segir: „Nonni ráðgjafi er eitthvað sem er meira svona eins og þýskur fangavörður en ég sá eftir nokkra mánuði þarna að víst vissi hann hvað hann var að gera.“

Hólmfríður segir hins vegar: „Það er ekki manneskjuleg leið að brjóta fólk niður til að byggja það upp aftur. Þú ert þarna með viðkvæmt fólk í höndunum, meðal annars ungmenni. Þú getur ekki leyft þér að öskra á veikt fólk sem er að leita sér hjálpar af fúsum og frjálsum vilja og berjast fyrir lífi sínu.“

Hólmfríður segir að henni hafi fundist Krýsuvík yndislegur staður þegar Jón var fjarri henni. Allt annað hafi henni líkað vel. En hann hafi síðan getað eyðilegt fyrir henni yndislegan dag með einni athugasemd.

„Manni leið eins og skít og hann fór létt með að brjóta mig niður því ég hef ekki átt auðvelt líf. Að þurfa að sitja undir svona niðurlægjandi framkomu og kúgun komin yfir fimmtugt var ótrúlegt.“

Hún segir að Jón hafi ekkert að gera á meðferðarheimili eins og í Krýsuvík. „Hann á ekki heima þarna, þessi maður. Hann getur eflaust gert góða hluti annars staðar, en þarna á hann ekki heima.“

Hólmfríður hefur líka efasemdir um að Jón hafi æskilega menntun í stöðu sem þessa. Þær athugasemdir hafa verið viðraðar áður. Í grein á vef Hringbrautar fyrir ári kemur fram að Jón eigi að baki fjögurra mánaða námskeið í ráðgjafarskóla. Hann hafi áður starfað sem húsvörður en hafi litla reynslu af meðferðarstarfi. Þó stýri hann meðferðarstarfinu á einni stærstu meðferðarstöð landsins, sem Krýsuvík er.

„Ég er ekki að leita til fjölmiðla með þetta mín vegna. Ég er að gera þetta út af öðru fólki. Því þessi framganga hans er eitthvað sem á ekki að sjást í meðferðarstarfi og ég vil ekki að fleiri skaðist vegna hans,“ segir Hólmfríður.

Hólmfríður vill geta þess að framkvæmdastjórinn, Þórdís, hafi reynt að taka á eineltinu og hafi margrætt við Jón um framkomu hans við Hólmfríði. Notaði hún meðal annars orðalagið „Þetta er ekki boðlegt“ um háttalag Jóns. Hins vegar skilaði þessi viðleitni framkvæmdastjórans ekki árangri og núna hefur Hólmfríður misst starf sitt í Krýsuvík á meðan Jón ríkir þar áfram.

Hólmfríður vill ennfremur að það komi fram að hún vilji alls ekki að meðferðarheimilinu í Krýsuvík verði lokað. Þar sé þrátt fyrir allt unnið gott starf sem hafi hjálpað mörgum.

„Dópistarnir? Hvað eigum við að gera við þá?“

DV hafði samband við Þórdísi Jóhannsdóttur Wathne, framkvæmdastjóra meðferðarheimilisins í Krýsuvík, og Jón Kristján Jacobesen, dagskrárstjóra, og bað þau um að bregðast við gagnrýninni. Þau færðust í undan því að svara í síma en ljáðu máls á að svara spurningum í tölvupósti. DV sendi þeim tölvupóst í gær þar sem annars vegar er beðið um að brugðist sé við ásökunum um einelti og andlegt ofbeldi af hálfu Jóns og hins vegar að brugðist sé við efasemdum um að hann hafi nægilega menntun til að sinna starfi dagskrárstjóra á einni stærstu meðferðarstöð landsins.

Ekki bárust svör fyrir birtingu fréttarinnar en berist þau síðar verða þeim gerð skil í annarri frétt.

Þórdís ræddi hins vegar stuttlega við blaðamann án þess að bregðst við erindinu, þar sem hún varaði við neikvæðri umfjöllun um meðferðarheimilið:

„Við erum að vinna gríðarlega mikilvægt starf fyrir fólk sem er heimilislaust, fólk sem annars byggi á götunni, sem kemur til okkar og nær að öðlast nýtt líf. Krýsuvík er einn mikilvægasti hlekkurinn í því að fólk verði edrú á nýjan leik og það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að halda trúverðugleika, sem hefur verið rýrður töluvert með ykkar tilkostnaði,“ sagði Þórdís og vísaði meðal annars til gagnrýninnar umfjöllunar DV um staðinn árið 2018.

„Ég tek við sem framkvæmdastjóri í febrúar, ég kem úr rekstrarumhverfinu og er virkilega að efla Krýsuvík á nýjan leik. Gera staðinn sjálfbæran í því að taka á móti virkilega veikum hópi. Þess vegna er erfitt fyrir okkur að fá slæma umfjöllun, ekki síst fyrir þann hóp sem þarf á okkur að halda. Þess vegna vænti ég þess að það sjónarmið sé tekið gilt, að þarna er um einu langmfeðferðina á Íslandi að ræða sem er sex mánuðir eða lengur. Án svona úrræðis værum við með miklu fleira fólk á götunni með tilheyrandi glæpum og öðru.“

Nokkra athygli blaðamanns vakti að Þórdís sagðist í óspurðum fréttum ekki hafa neinn bakgrunn eða reynslu í meðferðarmálum og gaf í skyn að hún hafi haft ranghugmyndir um fólk með fíknivanda áður en hún tók við starfinu fyrr á þessu ári:

„Ég hef aldrei verið í þessum málaflokki áður en þegar maður kynnist honum sér maður hvað hann er mikilvægur. Í dag finnst mér þetta yndislegt fólk sem maður þarf að bjarga. Ég kem bara sem rekstrarverkfærðingur til starfa þarna og maður sér hvaða þetta er bráðmikilvægt starf. Ég var í þeirri stöðu að ég hugsaði bara: Dópistarnir? Hvað eigum við að gera við þá? Í dag finnst mér þetta vera svo yndislegt fólk sem þarf að bjarga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Verslunin Iceland kynnti nýjar og furðulegar innkaupakerrur og körfur

Verslunin Iceland kynnti nýjar og furðulegar innkaupakerrur og körfur
Fréttir
Í gær

Friðrik Ólafsson níræður í dag – Haldið upp á afmælið í Hörpu

Friðrik Ólafsson níræður í dag – Haldið upp á afmælið í Hörpu
Fréttir
Í gær

Sverrir Einar segir að dansara hans hafi verið vísað ólöglega úr landi – „Þetta er alvarlegt brot á réttindum konunnarׅ“

Sverrir Einar segir að dansara hans hafi verið vísað ólöglega úr landi – „Þetta er alvarlegt brot á réttindum konunnarׅ“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögmaður leggur til að hætt verði að sækja fólk til saka vegna neysluskammta af kannabis

Lögmaður leggur til að hætt verði að sækja fólk til saka vegna neysluskammta af kannabis
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega