Jói Fel, öðru nafni Jóhannes Felixsson, færðist undan því að tjá sig um stöðu bakaría sinna er DV hafði samband við hann í dag. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur krafist gjaldþrotaskipta hjá bakarískeðju Jóa vegna vangoldinna iðgjalda af launum starfsfólks.
Í samtali við DV segir Jói að þessi mál séu ekki komin á hreint en „gæti eitthvað gerst í vikunni,“ sagði hann orðrétt og baðst undan því að ræða málið frekar.
Í samtali við Mannlíf segir Jói: „Ef ég á að segja þér alveg eins og er þá veit ég ekki hver staðan er. Ég bara veit það ekki.“
Í samtali við DV núna rétt í þessu sagði Jói að hann vissi ekki hvort tækist að bjarga rekstrinum: „Ég er bara á fundum alla vikuna, allt er í vinnslu og ég veit ekkert.“
Eins og DV greindi frá í fyrra varð bakaríið Guðni bakari gjaldþrota þann 26. ágúst 2019. Bakaríið var í helmingseigu Jóa. Sá rekstur var ótengdur rekstri Jóa Fel bakaríanna á höfuðborgarsvæðinu. Núna er ljóst að sú keðja er komin í mikla erfiðleika og gjaldþrot gæti vofað yfir.
Eins og Jói segir gætu málin skýrst síðar í vikunni.