Fréttastofa Stöðvar 2 skýrði frá þessu um helgina og fjallar Fréttablaðið um málið í dag. Fram kemur að konunni hafi að lokum tekist að gera lögreglunni viðvart. Sérsveitarmenn þurftu að beita táragasi og gúmmíkúlum til að yfirbuga manninn. Konan var ekki í lífshættu eftir árásina og mun ná sér að fullu að sögn Fréttablaðsins.
Fram kemur að tveimur mánuðum áður hafi þessi sami maður svipt mann frelsi í nítján klukkustundir og veitt honum margvíslega áverka. Þeir þekktust lítillega. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að árásarmaðurinn hafi verið í annarlegu ástandi á meðan á ofbeldinu stóð. Hann er sagður hafa verið haldinn ranghugmyndum um að kunningi hans hefði leitt sig í gildur og valdið sér skaða.
Maðurinn er sagður hafa beitt margskonar ofbeldi á meðan á frelsissviptingunni stóð. Hann er sagður hafa handleggsbrotið manninn og brotið sex rifbein. Fórnarlambinu tókst að lokum að sannfæra manninn um hringja í bróður sinn með því að segja að hann væri á bandi gerandans. Það var þó ekki rétt en bróðirinn hringdi í lögregluna sem handtók gerandann.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að maðurinn hafi í kjölfarið verið vistaður á réttargeðdeild og átt að vera þar í mánuð. Honum var sleppt þaðan eftir þrjár vikur vegna góðrar hegðunar. Rúmum mánuði síðar réðst hann á leigusala sinn eins og fyrr sagði.
Maðurinn á langan sakarferil að baki og hefur hlotið marga dóma fyrir vörslu stera og eiturlyfja auk dóma fyrir líkamsárásir. Hann hafði afplánað þessa dóma og var ekki á sakaskrá þegar fyrrgreind ofbeldisverk áttu sér stað á þessu ári segir Fréttablaðið.