fbpx
Sunnudagur 29.desember 2024
Fréttir

Auður giftist á Litla Hrauni og hefur ekki fengið að snerta manninn sinn síðan – „Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 15. september 2020 11:55

Jóna Auður Haraldsdóttir. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er erfitt að sitja í fangelsi og það er erfitt að eiga ástvin í fangelsi. En álagið á þá sem eru í þessum erfiðu aðstæðum hefur stóraukist eftir kórónuveirufaraldurinn. Fyrr á þessu ári máttu fangar þola þriggja mánaða heimsóknarbann. Heimsóknarbann var svo tekið upp að nýju við hertar sóttvarnaaðgerðir í lok júlí. Þremur dögum áður giftist Jóna Auður Haraldsdóttir sínum heittelskaða en hann hefur setið á Litla Hrauni síðan 16. júní. Athöfnin fór fram á Litla Hrauni.

„Við giftum okkur 28. júlí í fangelsinu. Síðan sá ég hann ekki meira. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta,“ segir Auður í viðtali við DV. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég er með manni sem situr í fangelsi. Það er ömurlegt að fá ekki að hitta manninn sinn, slíkt er alltaf mjög erfitt þó að ég geri mér grein fyrir því að hann eigi að sitja af sér sinn tíma.“

Auður og eiginmaður hennar hennar höfðu búið saman í nokkurn tíma er honum var skyndilega gert að sitja af sér skilorðsbundinn fangelsisdóm frá árinu 2014. Dóminn hafði hann fengið fyrir aka bíl réttindalaus en þó alsgáður. „Hann var að keyra móður sína. Það er í sjálfu sér eðlilegt að hann taki afleiðingum gjörða sinna en maður veltir fyrir sér hvort ekki sé hægt að finna önnur úrræði fyrir ekki alvarlegra brot en þetta,“ segir Auður og bendir á að plássleysi í fangelsum valdi því að menn með sem framið hafa alvarlegri afbrot þurfi að bíða lengi eftir því að afplána. „Það var óþægilegt hvað honum var kippt snögglega frá mér. Þegar menn rjúfa skilorð er enginn aðlögunartími heldur fara þeir beint inn.“ Skilorðbrotið fólst í því að hann sat í fíflagangi undir áhrifum undir stýri á kyrrstæðum bíl á meðan vinur hans, bílstjórinn, var að reykja. Hann ók aldrei þeim bíl.

Auður segir að heimsóknabann hafi leikið marga fanga afar grátt og aukið enn á einangrun þeirra sem er nóg fyrir. Hún telur að grípa mætti til vægari aðgerða án þess að valda aukinni smithættu og bendir á að fangaverðir séu í návígi við fanga og séu eins og annað fólk í alls konar samskiptum úti í þjóðfélaginu utan vinnutíma, þeir beri þó hvorki hanska né grímur við vinnuna. Það ætti því ekki síður að vera smithætta tengd þeim en nánustu aðstandendum fanga sem séu að passa mjög vel upp á smitvarnir.

Auður bendir einnig á að það hefði alltaf verið hægt að leyfa svokallaðar „glerheimsóknir“ en þá skilur glerveggur að fangann og þann sem heimsækir. Slíku hefði verið hægt að koma fyrir án þess að valda smithættu. Góð aðstaða sé til slíks á Litla-Hrauni enda er slíkt fyrirkomulag við heimsóknir til að byrja með þegar aðstandendur fanga fara í gegnum nokkurs konar aðlögunarferli varðandi heimsóknir.

„Fangelsi á að vera betrunarvist en eins og ástandið er núna er þetta engin betrun. Margir fangar á Litla Hrauni sem voru edrú hafa fallið og aðrir sem voru í einhverri neyslu hafa stóraukið neysluna. Einhver gæti haldið að erfiðara væri að nálgast fíkniefni við þessar hertu aðgerðir en staðreyndin er sú að neyslan hefur stóraukist hjá mörgum. Strákarnir eru að fá sér meira til að deyfa sársaukann og gleyma sér. Tíminn líður mjög hægt þarna inni og þeir hafa ekkert til að hlakka til þegar ekki er von á neinum. Það er strákur þarna sem fór að hágráta fyrir skömmu því hann hafði ekki hitt móður sína í langan tíma en hún var eina manneskjan sem heimsótti hann. Þarna er líka maður sem er ekki í neinni neyslu, fjölskyldufaðir, sem er orðinn eins og vofa af þessari einangrun og hefur hríðhorast.“

Jóna Auður Haraldsdóttir. Aðsend mynd.

Lenda í einangrun ef þeir snerta ástvini

Útbúin var fjarskiptastöð á Litla-Hrauni sem gerði föngum kleift að tala við ástvini í gegnum Skype. Tíminn til þess er hins vegar mjög naumt skammtaður og um tíma var þetta tekið niður, að sögn vegna þess að of mikið álag var á kerfið. Nýlega var svo Skype-tíminn minnkaður niður í tvö skipti á viku. Á sama tíma voru heimsóknir hins vegar leyfðar aftur og hefur Auður fengið að hitta manninn sinn aftur og er að fara að hitta hann í dag. Hins vegar verður að vera tveggja metra fjarlægð á milli þeirra.

„Ég væri frekar til í glerheimsókn. Það er ömurlegt að standa fyrir framan manninn sinn og mega ekki knúsa hann, og vita að ef maður gerir það þá gæti hann lent í einangrun,“ segir hún en viðurlög við snertingu eru tveggja vikna einangrun og eru fangarnir sendir til að afplána hana á Hólmsheiði þar sem verið er að vinna að endurbótum á einangrunarganginum á Litla Hrauni.

Auður telur að heppilegra væri að hver fangi fengi aðeins einn gest og sá náni aðili mætti snerta hann. Smitrakning sé þá mjög auðveld ef smit kæmi upp auk þess sem nánustu aðstandendur fanga sem fá að heimsækja þá passi upp á sóttvarnir sínar. Ennfremur sé vel geranlegt að hólfa niður og einangra ef smit komi upp á Litla Hrauni.

„Mér finnst líka leiðinlegt að það berast aldrei svör við fyrirspurnum frá Fangelsismálastofnun. Ég hef sent tvo tölvupósta og engin svör fengið. Ég sendi síðan fyrirspurn á vefsíðu Fangelsismálastofnunar en henni hefur verið eytt.“

Eiginmaður Jónu Auðar lýkur afplánun 15. nóvember. Þegar blaðamaður segir að það sé löng bið þá segist hún vera glöð að heyra það því fólk sé að segja við hana að þetta sé stuttur tími. „En í þessu ástandi er einn dagur eins og heil vika að líða.“

Hún hlakkar engu að síður til að hitta sinn heittelskaða í dag þó að erfitt sé að fá ekki að snerta hann og hún hlakkar til að deila með honum lífi sínu þegar hann losnar út í nóvember. Þau muni komast í gegnum þetta en hún hefur áhyggjur af öðrum föngum og hvaða áhrif þessar hörðu reglur varðandi heimsóknir og samskipti við ástvini hafi á velferð þeirra.

Auður tekur fram að margt yndislegt fólk starfi á Litla Hrauni og hún efast ekki um að flestir séu að reyna að gera sitt besta. En það mætti endurskoða heimsóknahömlurnar. Hún fer yfir þetta í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni og hægt er að lesa með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mótmælir lokun áfengisnetsölu – „Lögreglan hefur beitt okkur óhóflegu valdi“

Mótmælir lokun áfengisnetsölu – „Lögreglan hefur beitt okkur óhóflegu valdi“
Fréttir
Í gær

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Steingrímur rifjar upp örlagaríka för á hamfarasvæði – „Og ekkert varð aftur eins“

Steingrímur rifjar upp örlagaríka för á hamfarasvæði – „Og ekkert varð aftur eins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Björguðu þaki á hlöðu á bæ rétt suður af Hvolsvelli

Björguðu þaki á hlöðu á bæ rétt suður af Hvolsvelli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu