Fréttablaðið skýrir frá þessu en það hefur athugasemdir félagsins undir höndum. Fram kemur að í þeim komi fram að Lífsvirðing hafi „alltaf verið þeirrar skoðunar að dánaraðstoð ætti að vera hluti lífslokameðferðar“.
Í skýrslu heilbrigðisráðherra er fjallað um líknarmeðferð sem „meðferð sem hefur það markmið að lina þjáningar og bæta lífsgæði sjúklings sem greinst hefur með alvarlegan, lífsógnandi eða langvinnan sjúkdóm“ og að markmiðið með slíkri meðferð sé að draga úr vanlíðan sjúklings og styðja bestu mögulegu lífsgæði sjúklings og fjölskyldu.
Fréttablaðið hefur eftir Ingrid Kuhlman, formanni Lífsvirðingar, að það sé áhugavert að ráðuneytið haldi því fram að líknarmeðferð sé tegund dánaraðstoðar.
„Því hefur alltaf verið haldið fram að ekki sé verið að veita dánaraðstoð hér á landi svo ef þetta er dánaraðstoð þá er búið að vera að veita hana hér í mörg ár,“
er haft eftir henni en þar vísar hún til líknandi meðferðar sem veitt er á líknardeild Landspítalans. Hún gagnrýndi einnig að í skýrslunni sé látið eins og engar kannanir hafi verið gerðar á viðhorfi almennings til dánaraðstoðar en 2015 fékk Siðmennt fyrirtækið Maskínu til að kanna viðhorf almennings til dánaraðstoðar. Í könnuninni kom fram að 78% svarenda voru hlynntir því að fólk geti notið dánaraðstoðar.