Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Margeiri Sveinssyni, yfirlögregluþjóni hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að framboð á sterkum fíkniefnum, sérstaklega á kókaíni og amfetamíni, hafi farið minnkandi frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á.
„Í upphafi virtist nóg vera til en það er önnur staða nú,“
er haft eftir Margeiri.
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá ríkislögreglustjóra var lagt hald á 20,5 kíló af amfetamíni á fyrri helmingi ársins en 2019 var magnið 13,8 kíló og 2018 var það 2,7 kíló. Í heildina var lagt hald á 54 kíló á síðasta ári.
Það er þekkt að aukið framboð á fíkniefnum getur leitt til þess að þau séu seld í meiri styrkleika en annars.
„Við höfum engin sérstök dæmi um að styrkleiki sé að minnka en það má ætla það hins vegar að þegar efnin eru af skornum skammti þá fari menn að þynna þau út samkvæmt reynslunni, en það er ekki þar með sagt að það sé þannig núna,“
er haft eftir Margeiri.
Hvað varðar kannabisefni hefur ekki orðið vart við skort á þeim en talið er að öll framleiðsla þeirra fari fram hér á landi.