Kona á níræðisaldri sem dvelur á Hlíf, dvalarheimili fyrir aldraða, greindist um helgina með COVID-19. „Í framhaldinu var öllu skellt í lás,“ segir Reynir. „Móðir mín var sett í stranga einangrun sem hún ræður engan veginn við. Bræðrum mínum og mágkonum er harðbannað að hafa við hana samskipti, hvorki í tveggja metra fjarlægð eða meira. Tengdadóttir hennar sem er ónæm fyrir veirunni mátti ekki fara til hennar í sóttvarnarbúningi.“
Reynir segir að allt sem móðir hans fær er sett í andyrið hjá henni og að hún fái ekkii að hitta neinn nema hugsanlega einhvern starfsmann. „Þetta er að mínu mati mannréttindabrot og óboðleg meðferð á manneskju sem glímir við það að geta ekki séð um sjálfa sig óstudd.“ Hann segir þó að þetta sé ekki á ábyrgð þeirra sem stjórna á Hlíf, það fólk deili sömu áhyggjum og hann. „Heilbrigðisyfirvöld bera alla ábyrgð á frelsissviptingu og einangrun hennar,“ segir Reynir í lok færslunanr.
„Þetta er hið dularfyllsta mál og ég skil vel óánægju og reiði fólks varðandi þessar íþyngjandi hömlur,“ sagði Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í samtali við Mannlíf um málið. Gylfi segir að framundan sé fundur þar sem málið verður rætt.