Í dag greindi Kjarninn frá því að Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem nú starfar hjá Samherja, hefði áreitt fjölmiðlamanninn Helga Seljan með því að sitja fyrir honum á kaffihúsi og senda honum ítrekað skilaboð. Nú hefur Jón Óttar boðist afsökunar á hegðun sinni gagnvart Helga Seljan. Þetta kemur fram í svari sem hann sendi Kjarnanum.
SJÁ EINNIG: Jón Óttar sakaður um ítrekaða áreitni í garð Helga Seljan
Þar segir Jón það rangt af sér að senda umrædd skilaboð og að þau endurspegli dómgreindarbrest sinn. Hann hafi verið undir miklu álagi og að hann sjái mikið eftir skilaboðunum og biður Helga Seljan afsökunar.
Jón vill þó meina að hann hafi ekki setið fyrir Helga á kaffihúsinu Kaffifélagið, hann hafi verið þar gestur í mörg ár. Þá tekur hann fram að skilaboðin hafi verið af hans eigin frumkvæði og án vitundar Samherjamanna.
Þess má geta að DV reyndi að ná tali af Jóni í dag. Hann svaraði símanum sínum, sagðist ekki heyra í blaðamanni og skellti síðan á. Þegar blaðamaður reyndi að hringja aftur í Jón þá náðist ekki lengur í símann hans, svo virðist sem hann hafi slökkt á símanum.
Yfirlýsingu Jóns Óttars sem birtist á Kjarnanum má lesa hér að neðan:
„Vefritið Kjarninn fjallar í dag um SMS-skilaboð sem ég sendi Helga Seljan, fréttamanni hjá Ríkisútvarpinu. Það var rangt af mér að senda umrædd skilaboð, þau endurspegla dómgreindarbrest af minni hálfu og ég sé mikið eftir því að hafa sent þau. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að biðja Helga Seljan afsökunar á þessum sendingum.
Án þess að ég vilji reyna að réttlæta skilaboðin og efni þeirra finnst mér mikilvægt að fram komi að ég hef undanfarið verið undir miklu álagi. Einkum vegna neikvæðrar umfjöllunar í fjölmiðlum um mig persónulega. Nær öll skilaboðin voru send fyrr í þessum mánuði þegar umrædd fjölmiðlaumfjöllun var hvað mest áberandi með tilheyrandi óþægindum fyrir mig og fjölskyldu mína.
Þá finnst mér rétt að undirstrika að heimsóknir mínar á kaffihúsið Kaffifélagið við Skólavörðustíg voru ekki til þess að elta Helga Seljan, eins og kemur fram í umfjöllun Kjarnans, enda hef ég verið viðskiptavinur kaffihússins í mörg ár. Hafa heimsóknir mínar þangað ekkert með Helga að gera og er því umfjöllun Kjarnans röng hvað þetta snertir. Ég get hins vegar ekki stýrt því hvernig Helgi Seljan upplifir samskipti okkar í gegnum árin.
Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hef ég sinnt ráðgjöf fyrir Samherja hf. sem verktaki. Tekið skal fram að stjórnendur félagsins höfðu ekki vitneskju um skilaboð mín til Helga. Mér finnst miður ef þessi gagnrýniverða háttsemi mín verði á einhvern hátt bendluð við félagið og starfsfólk þess því hún er alfarið á mína ábyrgð.“