Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Karli Konráði Andersen, yfirlækni á Hjartagátt Landspítalans, að hluti skýringarinnar á þessu sé að sjúklingar veigri sér við að leita á bráðamóttöku vegna einkenna sinna.
„Á COVID-tímanum í vor varð vart við umtalsverða fækkun í komum á bráðamóttöku vegna hjartaáfalla um allan heim, allt að 40 prósentum. Það er talið að þetta stafi ekki af raunverulegri fækkun tilfella. Þegar frá líður hafa þessir sjúklingar verið að greinast og vísbendingar eru um að þeir komi seint til læknis,“
sagði Karl og bætti við að hér á landi séu tilfellin of fá til að hægt sé að fullyrða að það sama eigi við hér.
„Hins vegar er almenna viðhorfið og tilmæli alþjóðlegra hjartalæknasamtaka að þó að við þurfum að viðhafa „social distancing“ eigi það alls ekki að leiða til „medical distancing“. Með öðrum orðum, sjúklingar með einkenni um hjartaáföll eiga að leita sér aðstoðar á bráðamóttöku þegar grunur er um bráð hjartavandamál,“
sagði Karl.