Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Við höfum verið með skólatöskur fyrir þá sem eiga ekki skólatösku en aðallega finnum við aukna aðsókn í fötin. Marga vantar úlpur, yfirhafnir, íþróttaföt og sundföt.“
Er haft eftir Vilborgu sem sagði að umsóknum um efnislega aðstoð hafi fjölgað um 40% síðastliðna fimm mánuði. Farið hafi verið í fjáröflun til að reyna að létta undir með sem flestum.
„Við erum náttúrulega búin að vera að kaupa það sem vantar, skólatöskur, tréliti, nestisbox og allt þetta sem krakkarnir þurfa að eiga heima þó að flest sé til í skólanum. Margir eiga skólatösku síðan í fyrra en vantar föt fyrir komandi vetur. Við verðum einhvern veginn að mæta þessum hópi.“
Er haft eftir henni. Hjá Fjölskylduhjálp Íslands tók Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður, í sama streng og sagði gríðarlega aðsókn vera í matargjafir og fatnað.
„Við höfum afhent allar þær skólatöskur sem okkur hafa verið gefnar og ég finn ofboðslegan þunga í samfélaginu.“
Hún sagðist búast við rúmlega eitt þúsund aðstoðarbeiðnum í næsta mánuði.
„Þú getur rétt ímyndað þér allt fólkið sem er búið að vera á hlutalaunum og alla þá sem var sagt upp fyrir þremur mánuðum og missa því vinnuna núna, og alla öryrkjana sem fá kannski 240 þúsund krónur útborgað. Þetta er bara ekki nóg, það má ekkert koma upp á.“